Innlent

Félag leiðsögumanna slítur kjaraviðræðum

Atli Ísleifsson skrifar
Enginn viðunandi árangur hefur náðst í viðræðum síðustu vikna að mati Félags leiðsögumanna.
Enginn viðunandi árangur hefur náðst í viðræðum síðustu vikna að mati Félags leiðsögumanna. Vísir/Vilhelm
Kjaranefnd Félags leiðsögumanna hefur ákveðið að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins og vísa til ríkissáttasemjara.

Í tilkynningu frá félaginu segir að kjaranefndin hafi verið á mörgum og löngum fundum með viðsemjendum á undanförnum vikum en þótt aðeins hafi þokast í samkomulagsátt hafi enginn viðunandi árangur náðst.

„Kjaranefnd og félagið hafði lagt mikla vinnu í undirbúning vegna kjaraviðræðnanna en formaður nefndarinnar er Snorri Ingason. Með honum starfa þau Bergur Álfþórsson, Elísabet Brand, Sigríður Guðmundsdóttir og Jens Ruminy, auk þess sem formaður félagsins situr fundi nefndarinnar og stundum fleiri stjórnarmenn.

Niðurstaðan varð því sú að þann 18. maí afhenti Vilborg Anna Björnsdóttir, starfandi formaður félagsins, ríkissáttasemjara og SA bréf um að kjaraviðræðum hafi verið slitið. Þess er vænst að innan viku frá afhendingu bréfsins verði kjaranefnd boðuð til fundar hjá ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×