Lífið

Ballett og herþjálfun í vetur

 Guðmundur Hafþórsson
Guðmundur Hafþórsson Visir/Ernir
Herþjálfun í vatni

„Þetta eru æfingar eins og við þekkjum öll úr ræktinni og líkamsræktartímum, hopp, hlaup og annað. Nema þetta er í vatni þannig að mótstaðan er miklu meiri en dagsdaglega,“ segir Guðmundur Hafþórsson einkaþjálfari.

Hann er að byrja með námskeiðið Herþjálfun í vatni en þar eru gerðar æfingar í sundlaug. „Við erum að keyra á hárri ákefð, ná að keyra mikla brennslu og styrkja líkamann, en á sama tíma ertu ekki að fá högg á líkamann. Þetta er mjúk hreyfing og gríðarlega góð æfing,“ segir hann.

Tímarnir verða á þriðjudögum og fimmtudögum í vetur og er hvert námskeið fjórar vikur. „Þetta er tilvalið fyrir fólk sem er í ræktinni til að taka á móti þeim æfingum og það að vera í vatninu hefur slökunaráhrif,“ segir hann. Hver tími er 50-60 mínútur og er þetta í fyrsta sinn sem þetta er kennt hér á landi. Fyrsti tíminn er í dag klukkan 17.30 í Álftaneslaug og er öllum velkomið að koma og prófa. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vatnsþjálfunar.

Brynja Scheving, ballettkennari.Vísir/Andri
Ballett Fitness fyrir fullorðna



Ein heitasta líkamsræktin erlendis um þessar mundir er Ballett Fitness, og hafa æfingarnar verið sérstaklega vinsælar hjá fyrirsætum Victoria's Secret. Ballettskóli Eddu Scheving býður upp á námskeið í þessari vinsælu hreyfingu. „Þetta er byggt á prógrammi sem var sérhannað fyrir NYC-ballettinn og fyrir ballerínur sem voru að ná sér eftir meiðsli,“ segir Brynja Scheving hjá Ballettskólanum. Í tímunum er unnið mikið með líkamsstöðu og styrk.

„Æfingarnar eru annars vegar æfingar á dýnu á gólfi þar sem áherslan er lögð á að styrkja miðjuna. Hins vegar eru þetta svo klassískar ballettdansæfingar við stöng,“ segir Brynja. 

Æfingarnar segir hún vera svipaðar þeim sem þekkjast erlendis, en hér sé klassískum ballett blandað meira inn í. „Ballettinn er náttúrulega góð þjálfun fyrir allan líkamann, og þá sérstaklega æfingarnar fyrir miðjuna,“ segir hún. Tímarnir henta öllum, hvort sem það eru „gamlar“ ballerínur eða byrjendur. „Það er frjáls klæðnaður, en auðvitað er gott að vera í aðsniðnum fötum og með ballettskó. Og það eru allir velkomnir,“ bætir hún við. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu Ballettskóla Eddu Scheving.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×