Erlent

Al-Baghdadi „átti“ Kayla Mueller

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al Baghdadi og Kayla Mueller.
Abu Bakr al Baghdadi og Kayla Mueller. Vísir/AFP
Konan sem hélt Kayla Mueller í gíslingu sagði við yfirheyrslur Bandaríkjamanna, að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi samtakanna Íslamskt ríki, hefði „átt“ Mueller. Eins og fram hefur komið, nauðgaði hann henni ítrekað á meðan hún var í haldi samtakanna. Hann er sagður hafa „gifst“ Mueller, en fjölskylda hennar segir það rangt.

„Þeir sögðu okkur að hann hefði gist henni og við vitum öll hvað það þýðir,“ segir Carl Mueller í samtali við AP fréttaveituna í gær. Kayla hefði verið 27 ára gömul í gær. Móðir hennar, Marsha bætti við: „Kayla giftist ekki þessum manni. Hann tók hana í herbergi sitt og misnotaði hana og hún kom grátandi út.“

Sjá einnig: Leiðtogi ISIS nauðgaði bandarískum gísl samtakanna

Tveimur systrum sem voru í haldi með Mueller og tókst að flýja, sögðu bandarískum hermönnum hvar þeim hefði verið haldið. Hins vegar var foreldrum hennar sagt að þá hefði verið búið að flytja hana annað.

„Hún reyndi að vernda þessar ungu stúlkur,“ segir Marsha og bætir við að stúlkurnar hafi litið á hana sem móður sína.

Systurnar báðu Mueller að flýja með sér, en hún neitaði og sagði að útlit hennar myndi gera þeim erfitt fyrir á flóttanum.

Hún lést í haldi ISIS og héldu þeir því fram í febrúar að hún hefði fallið í loftárás Jórdana. Það hefur ekki verið staðfest. Áður en systurnar flúðu var Mueller í haldi Abu Sayyaf, fjármálastjóra ISIS, og Umm Sayyaf, eiginkonu hans. Þremur mánuðum eftir að tilkynnt var um andlát Mueller réðust bandarískir sérsveitarmenn á heimili þeirra. Abu Sayyaf var felldur og Umm handsömuð.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fjölskylda hennar fékk, staðfesti Umm Sayyaf við yfirheyrslur að Baghdadi hefði „átt“ Mueller. Fjölmörgum konum var haldið á heimili þeirra hjóna á mismunandi tímum. Þær voru gefnar vígamönnum sem verðlaun og neyddar í kynlífsþrælkun.


Tengdar fréttir

Bandaríski gíslinn látinn

Kayla Jean Mueller, bandarísk kona sem samtökin Íslamska ríkið hafa haldið gíslingu í Sýrlandi síðustu tvö ár, er látin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×