Sjúkrabíll var að aka frá Landspítalanum þegar flugvél Mýflugs birtist úr sortanum í aðflugi um eittleytið. Viðvörun hafði verið gefin út frá Veðurstofu um mikla ókyrrð í lofti og aflýsti Flugfélag Íslands öllu innanlandsflugi sínu í dag og Flugfélagið Ernir fyrri hluta dags.
Í Reykjavík var suðvestanátt á þessum tíma og svo hvöss að aðeins ein flugbraut var fær til lendingar, að sögn flugstjórans, - brautin sem borgarstjórn Reykjavíkur krefur innanríkisráðherra um að verði lokað til að unnt sé að hefja byggingarframkvæmdir við brautarendann.

Sjúklingurinn var karlmaður sem hlotið hafði alvarlega höfuðáverka í slysi í heimahúsi á Akureyri og þótti brýnt að flytja hann á Landspítalann í Reykjavík. „Þetta er hæsti forgangur hjá okkur, höfuðmeiðsl,“ sagði Þorkell.

Hann segir að þyrla hefði hugsanlega þurft að fljúga með ströndinni að hluta og út fyrir Tröllaskaga. „Annað sem er slæmt fyrir sjúkling með höfuðmeiðsli er að þurfa að fljúga án jafnþrýstibúnaðar í farþegaklefa. Þyrlan hefur það ekki,“ sagði Þorkell.
Sjúkraflug Mýflugs frá Akureyri til Reykjavíkur tók um 45 mínútur, þrátt fyrir sterkan mótvind. Ókyrrðin náði upp í ellefu þúsund feta hæð. Þorkell segir að þeir hafi að mestu sloppið við hana með því að fljúga lengst af vel yfir þeirri hæð. Þá hafi þeir komið hátt inn á aðflugspunkt við Akranes og hringað sig niður yfir flóanum, fjarri fjöllum, til að forðast ókyrrðina.
