Fótbolti

Bach fékk nóg af FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Bach og Sepp Blatter ræðast við.
Thomas Bach og Sepp Blatter ræðast við. Vísir/Getty
Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar [IOC], segir að nú sér komið nóg af spillingu hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

Í gær bárust tíðindi af því að Sepp Blatter, forseti FIFA, framkvæmdastjórinn Jerome Valcke og varaforsetinn Chung Mong-joonvoru allir dæmdir í 90 daga bann frá knattspyrnu fyrir spillingu.

Michel Platini, forseti UFEA, og maðurinn sem flestir töldu að myndi bjarga ímynd FIFA sem nýr forseti sambandsin þegar Blatter myndi loksins stíga til hliðar, hefur einnig verið settur í bann fyrir að þiggja óeðlilega greiðslu frá FIFA árið 2011.

„Nú er komið nóg,“ sagði í yfirlýsingu IOC. „Við vonum nú að FIFA muni, í eitt skipti fyrir öll, gera sér grein fyrir því að sambandið getur ekki leyft sér að aðhafast ekkert.“

Ljóst er að Blatter á varla endurkvæmt í forsetastól FIFA úr þessu og þó svo að Platini hafi sagt að hann ætli þrátt fyrir allt að bjóða sig fram í forsetaembættið segir Bach að róttæka breytinga sé þörf.

„FIFA verður að átta sig á því að þetta snýst um meira en bara nöfn frambjóðenda. Vandinn snýst um hvernig sambandið er uppbyggt og það verður ekkert leyst einfaldlega með því að kjósa nýjan forseta.“

Í yfirlýsingunni segir að FIFA verði í fyrsta lagi að hraða öllum aðgerðum sem snúa að því að endurskipuleggja innra starf þess og uppræta alla spillingu. Í öðru lagi að fá utanaðkomandi en mikils vertan aðila til að bjóða sig fram til forseta FIFA og koma þannig á þeim breytingum sem þörf er á, svo að FIFA njóti aftur stöðugleika og trúverðugleika.


Tengdar fréttir

Blatter settur í 90 daga bann

Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur verið settur í 90 daga bann af siðanefnd FIFA, samkvæmt Klaus Stoehlker, fyrrverandi ráðgjafa og vinar Blatters.

FIFA setur Blatter, Platini og Valcke alla í 90 daga bann

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur leyst þá Sepp Blatter, forseta FIFA, Jerome Valcke, aðalritara FIFA og Michel Platini, varaformann FIFA, alla frá störfum í 90 daga en þeir hafa allir verið bendlaðir við spillingarmál innan knattspyrnuforystunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×