Hátt í 80 björgunarsveitarmenn af öllu Norðurlandi reyna nú að komast að ferðamönnum sem talið er að séu á eða við Urðarvötn. Ekki er vitað hvort ferðamennirnir séu þrír eða fjórir en ekkert hefur náðst að komast í samband við þá.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvenær björgunarmenn koma á staðinn, en fyrstu hópar eru komnir á Vatnahjalla. Aftakaveður er á svæðinu núna en spáð er að veður gangi hratt niður þegar líður á nóttina.
„Þetta mjakast svona hjá þeim og gengur ágætlega núna. En svo eru þeir að fara upp í alveg 1000 metra hæð og maður veit ekki hvernig veðrið er þar,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum víða um land í dag vegna óveðursins sem gengið hefur yfir landið. Þá leita björgunarsveitarmenn á Suðurlandi nú að tveimur erlendum ferðamönnum sem lentu í vandræðum í Álftavatnakrók.
Hátt í 80 björgunarsveitarmenn á leiðinni til ferðamanna fyrir norðan

Tengdar fréttir

Neyðarboð bárust frá ferðamönnum
Björgunarsveitin Dalbjörg í Eyjafirði og Súlur, björgunarsveitin á Akureyri voru kallaðar út á fimmta tímanum í dag eftir að boð bárust frá SPOT sendi á eða við Urðarvötn.

Hvetja fólk til að skilja illa búna bíla eftir heima
Líklegt er að samgöngur raskist verulega í dag.

Hafa ákveðið að rýma reit níu á Tálknafirði
Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að framlengja hættustig á áður rýmdum svæðum á Patreksfirði.