Innlent

Sveitarfélög vilja meiri peninga frá ríki

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þjónusta við fatlaða er meðal þess sem sveitarfélög kalla eftir stuðningi ríkisins við.
Þjónusta við fatlaða er meðal þess sem sveitarfélög kalla eftir stuðningi ríkisins við. Fréttablaðið/Anton
Landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu öllu skora á ráðherra og alþingismenn að tryggja við fjárlagagerð næsta árs aukin framlög til málaflokka sem mikilvægir séu fyrir byggðaþróun til framtíðar. Undir er þjónusta við fatlað fólk, samningar um sóknaráætlun, samgöngumál, almenningssamgöngur og ljósleiðaravæðing.

Áréttað er á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga að landshlutasamtökin séu sem fyrr „reiðubúin til að leggjast á árar með sínum kjörnu fulltrúum og ríkisvaldinu“ við að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. „Það verður þó ekki gert nema vilji til þess sjáist í fjárlagafrumvarpinu gagnvart þessum lykilmálum.“

Í greinargerð með áskorun landshlutasamtakanna er meðal annars vísað til þess að rekstrarhalli sveitarfélaga á þeim þáttum í þjónustu við fatlað fólk sem fluttir hafi verið frá ríki til sveitarfélaga nemi ríflega 1,7 milljörðum króna á árunum 2011 til 2014. Samkvæmt sumum sveitarfélögum kunni hallinn jafnvel að vera enn meiri.

„Landshlutasamtökin skora á alþingismenn og ráðherra að tryggja fjármagn til að greiða uppsafnaðan halla málflokksins og tryggja síðan fjármögnun hans frá og með árinu 2016, þannig að sveitarfélögin geti veitt þjónustu í takti við lög og reglugerðir um málaflokkinn,“ segir í greinargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×