Lífið

Pétur Jóhann ráðinn til 365 miðla: Vinnur að sjónvarpsþáttum með Jóni Gnarr

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pétur Jóhann mun strax hefja störf.
Pétur Jóhann mun strax hefja störf.
Pétur Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn til 365 miðla en hann er einn ástsælasti leikari og grínisti þjóðarinnar. Hann hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda. Hann hefur stjórnað fjölda útvarpsþátta. Hann er einn af handritshöfundum og aðalleikurum Vakta-þáttanna og skapaði þar eina ástsælustu persónu í íslensku sjónvarpi; Ólaf Ragnar Hannesson.

Pétur mun starfa að íslenskri dagskrárgerð hjá 365. Hann vinnur nú þegar að sjónvarpsþáttum í samvinnu við Jón Gnarr. Þættirnir bera vinnuheitið Borgarstjórinn. Þar mun Pétur leika aðstoðarmann borgarstjórans í Reykjavík sem leikinn verður af Jóni. Vinna við þættina gengur vel og verða þeir sýndir á Stöð 2 haustið 2016.

Jón Gnarr ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365 miðlum var að vonum glaður að fá sinn gamla vin og samstarfsfélaga til starfa.

„Ég hlakka mikið til að fá Pétur Jóhann til samstarfs. Við vinnum að því að efla og styrkja vandaða, íslenska dagskrárgerð og þar gegnir hann lykilhlutverki.”

„Ég hlakka mikið til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá 365 miðlum og vinna með öllu því frábæra fólki sem þar er. Þetta er eiginlega einsog að koma aftur heim,” segir Pétur Jóhann.

Nú stendur yfir útvarpsþátturinn FM95BLÖ en Pétur mun meðal annars starfa við þáttinn í vetur. Hér er hægt að hlusta á þáttinn í beinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×