Innlent

Gerðardómur: Hækkanir í takt við almennar launahækkanir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gerðardómur.
Gerðardómur.
Gerðardómur úrskurðaði í dag í kjaradeilu ríkisins við Bandalag Háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Samningar BHM gilda til 2017 en samningar FÍH gilda lengur eða til ársins 2019. Launahækkanir eru í takt við almennar launabreytingar sem gerðar hafa verið á kjarasamningum að undanförnu.

Lestu úrskurð Gerðardóms hér.

Gerðardómur framlengdi núgildandi kjarasamninga sem tryggir félagsmönnum FÍH 21,7 prósent launahækkun til ársins 2019. Félagsmenn BHM fá 7,2% launahækkun frá og með 1. mars sl. og 5,2% hækkun frá og með 1. júní 2016. Félagsmenn BHM fá einnig 63.000 króna eingreiðslu þann 1. júní 2017.



Samningur við FÍH gildir talsvert lengur en samningur við BHM en þó er endurskoðunarákvæði í samningi FÍH sem þýðir að hægt er að fara í kjaraviðræður hækki laun annarra félag umfram þá hækkun sem FÍH fær nú.

Í takt við þróun á launamarkaði.

Í úrskurðinum er tekið fram að þær breytingar sem eru gerðar á núgildandi kjarasamningum séu í takt við þær almennu launabreytingar sem gerðar hafa verið á kjarasamningum eftir 1. maí.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, hefur lýst yfir ánægju með að samningurinn sé til stutts tíma og að skref verði tekin til að meta menntun til launa. Það sé aðalkrafa BHM.

Ólafur Garðarsson, formaður FÍH, segir að efnislega sé hann sáttur enda séu þessar launahækkanir hærri en ríkið bauð.

Við taka útreikningar hjá félögunum til að sjá hvað þessir samningar þýða fyrir hvern og einn félagsmann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×