Erlent

Ein stærsta moska Evrópu opnar í Moskvu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Moskan er nokkuð glæsileg.
Moskan er nokkuð glæsileg. vísir/epa
Ein stærsta moska Moskvu mun opna í dag eftir áratugs undirbúning. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, auk Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, verða meðal þeirra sem verða viðstaddir hátíðlega opnun í dag. Þetta kemur fram hjá The Moscow Times.

Nýja moskan er byggð á sama stað og eldri moska sem byggð var árið 1904. Hún var hins vegar rifin árið 2011 til að búa til pláss fyrir hina nýju. Rúmlega 10.000 manns geta verið í moskunni samtímis sem gerir hana að einni af fimm stærstu moskum Evrópu. Fyrir eru tvær moskur af svipaðri stærð í landinu, Hjarta Tjetséníu í Grozny og Makhachkala moskan í Dagestan.

Lungan úr tíð Sovíetríkjanna var fyrirrennari nýju moskunnar eina moskan í landinu. Árið 2005 hófust menn handa við endurbætur á eldri moskunni en að lokum var sú ákvörðun tekin að byggja nýja.

Nýbyggingin kostaði 170 milljónir bandaríkjadollara, jafnvirði tæplega 22 milljarða íslenskra króna,  og var hún fjármögnuð alfarið með gjöfum og styrkjum frá múslimum víða um heim. Meðan annars gaf Mahmoud Abbas 25.000 dollara úr eigin vasa.

Alls er moskan á sex hæðum og 19.000 fermetrar en ljóst er að hún mun ekki nægja til að leysa húsnæðisvanda múslima í Moskvu. Þeir telja alls tvær milljónir en moskurnar í borginni eru alls fjórar og hinar þrjár geta aðeins hýst 2.000 manns. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×