Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag hollenska parið sem grunað er um að smygla um 80 kílóum af MDMA hingað til lands fyrir rúmum tveimur vikum í áframhaldandi gæsluvarðhald næstu tvær vikurnar.
Maðurinn og konan, sem eru á fertugsaldri, hefur verið í einangrun á Litla-Hrauni seinustu tvær vikur og mun vera það áfram samkvæmt úrskurðinum en farið var fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir parinu. Ekki liggur fyrir hvort að úrskurðinum verði áfrýjað en verjandi konunnar áfrýjaði fyrri gæsluvarðhaldsúrskurðinum.
Parið kom hingað til lands með Norrænu og fundust efnin falin í bíl sem þau voru á. Efnin voru meðal annars í niðursuðudósum, varadekki bifreiðarinnar og tveimur gaskútum. Þá hefur verið greint frá því að maðurinn hafi játað að hafa vitað um efnin en segir að kona sín hafi ekki vitað af þeim.

