Íslenski boltinn

Einar Orri í bann fyrir tíu gul spjöld | Oliver ekki með gegn ÍBV

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Einar Orri er duglegur að safna spjöldum.
Einar Orri er duglegur að safna spjöldum. vísir/arnþór
Einar Orri Einarsson, leikmaður Keflavíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta, verður í banni þegar liðið mætir Stjörnunni á Samsung-vellinum á laugardaginn í 21. umferð deildarinnar.

Einar Orri fékk sitt tíunda gula spjald þegar Keflavík tapaði, 4-0, gegn ÍA í síðustu umferð, en Keflvíkingar eru nú þegar fallnir niður í 1. deild.

Þó tíu gul spjöld sé vissulega mikill fjöldi í 22 leikja móti er þetta ekki persónulegt met hjá þessum mikla nagla sem kallar ekki allt ömmu sína á fótboltavellinum.

Einar Orri fékk nefnilega ellefu gul spjöld á síðustu leiktíð, þar af tvö gul spjöld í sama leiknum tvisvar sinnum sem leiddi til brottvísunar.

Við það bætti hann svo tveimur gulum spjöld í Borgunarbikarnum en í heildina voru þau þrettán á síðasta sumri.

Einar Orri verður ekki með Keflavík sem fyrr segir í næsta leik en getur jafnað eigið met fái hann gult spjald í lokaleiknum gegn Leikni á heimavelli.

Oliver í leikbann

Breiðablik á enn veika von á Íslandsmeistaratitlinum, en til þess að svo verði þarf liðið að vinna næstu tvo leiki sína og treysta á að FH misstígi sig.

Breiðablik mætir ÍBV á laugardaginn, en þar verður liðið án miðjumannsins Olivers Sigurjónssonar sem hefur verið einn af betri leikmönnum Íslandsmótsins. Hann var úrskurðaður í bann fyrir fjögur gul spjöld.

Aðrir sem voru úrskurðaðir í leikbann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ í gær eru: Kristján Flóki Finnbogason, FH, Frans Elvarsson, Keflavík, Vladimir Tufegdzic, Víkingi, Arnþór I. Kristinsson, Víkingi, Stefán Logi Magnússon, KR og Gunnar Már Guðmundsson, Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×