Viðskipti innlent

Þurfa að bæta við sig 300 hluthöfum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þann 15. október næstkomandi verður Síminn hringdur inn á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.
Þann 15. október næstkomandi verður Síminn hringdur inn á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Til að fá skráningu á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þarf Síminn að uppfylla það skilyrði að það séu að lágmarki 500 hluthafar. Í dag eru hluthafarnir 208 og því þarf þeim að fjölga um tæplega 300 fyrir 7. október næstkomandi. Þetta kom fram á kynningarfundi vegna hlutafjárútboðs Símans sem fór fram í höfuðstöðvum Arion banka í morgun.

Þann 15. október næstkomandi verður Síminn hringdur inn á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Eftir helgi hefst almennt úboð á hlutabréfum í Símanum og mun fara fram 5.-7. október næstkomandi. Arion banki býður 18-21 prósent hlut í félaginu til sölu í útboðinu, en Arion banki er sem stendur stærsti hluthafi Símans og á 27,8% hlut. Stærð hlutans á útboðinu nemur að lágmarki 4,7 milljörðum króna ef miðað er við lágmarksgengið. 

Í almenna útboðinu geta fjárfestar valið um að skrá sig fyrir kaupum í tilboðsbók A að andvirði á bilinu frá 100 þúsund krónum og upp í 10 milljónir króna. Þar verður tekið við áskriftum á verðbilinu 2,7-3,1 króna á hlut en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs. Í tilboðsbók B verður tekið við áskriftum að andvirði yfir 10 milljónum króna. Þar verður lágmarksverð 2,7 krónur á hlut og ekkert hámarksverð tilgreint af seljanda en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók B verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs sem verður jafnt eða hærra útboðsgengi í tilboðsbók A.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×