Innlent

20 stiga frost á Akureyri og Mývatni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Spegilslétt Mývatn á fallegum vetrardegi
Spegilslétt Mývatn á fallegum vetrardegi Vísir/vilhelm
Gífurlegur kuldi hefur verið á landinu að undanförnu og líkur eru á að frost verði mikið víða í dag.

Að sögn veðurfræðings er útlit fyrir hægan vind og bjart veður frameftir degi og því kjöraðstæður fyrir frostið að ná sér strik. Slíkar aðstæður voru einnig uppi á teningnum í gær en þá mældist tæplega 20 stiga frost á Mývatni og á flugvellinum á Akureyri. 

Dálítil snjókoma eða él halda áfram Austanlands fram yfir hádegi, en léttir síðan til. Einnig eru líkur á stöku éljum allra vestast í dag, en þau verða ekki efnismikil að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Búist er við sunnanátt með hlýnandi veðri á morgun og snjókomu eða slyddu Vestanlands í fyrstu, en rigningu undir kvöld. Fyrir austan verður áfram bjart meginhluta dags en dregur úr frosti.Eftir það tekur frekar átakalítið veður við á miðvikudag og fimmtudag. 

Veðurhorfur á landinu

Þá er hæg suðlæg eða breytileg átt. Víða bjart veður, en él austantil fram yfir hádegi og stöku él við Vesturströndina. Frost 2 til 15 stig, mest inn til landsins. Sunnan og suðvestan 5-10 metrar á sekúndu á morgun með snjókomu eða slyddu á Vestanverðu landinu, en síðar rigningu við sjóinn og hlánar. Hægari austantil og bjartviðri fram á kvöld með minnkandi frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×