Fótbolti

Start í basli með fjárhaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Matthías og Guðmundur fagna marki í leik með Start.
Matthías og Guðmundur fagna marki í leik með Start. Vísir/Fædrelandsvennen
Mons Ivar Mjelde, knattspyrnustjóri norska liðsins Start, óttast að fjárhagsvandræði félagsins skemmi fyrir möguleikum liðsins á tímabilinu sem er fram undan í Noregi.

Þrír Íslendingar eru á mála hjá Start. Guðmundur Kristjánsson, Ingvar Jónsson og Matthías Vilhjálmsson og eru þeir eins og aðrir leikmenn til liðsins falir fyrir rétta upphæð, að sögn forráðamanna Start.

„Við höfum enn ekki fengið neitt tilboð í leikmann,“ sagði Magne Kristiansen, framkvæmdastjóri félagsins, en hann veit þó til þess að það er áhugi fyrir hendi á mörgum leikmönnum liðsins.

„Ég hef ekkert með þetta að gera. Ég vona bara að Start selji ekki þá leikmenn sem ég lít á sem byrjunarliðsmenn. Við verðum bara að halda áfram okkar starfi og svo kemur framhaldið í ljós,“ sagði Mjelde við norska fjölmiðla.

Matthías hefur verið iðinn við markaskorun í æfingaleikjum liðsins á La Manga á Spáni að undanförnu en allir þrír Íslendingarnir voru í byrjunarliði Start gegn Álasundi í gær. Matthías Vilhjálmsson skoraði annað marka Start.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×