Lífið

„Þá verða Facebook vinirnir bara 4999“

Edda Björgvinsdóttir er gestur Sigríðar Elvu í nýjasta þætti Fókus á Stöð 2. Þar er farið yfir feril Eddu, sem er vægast sagt fjölbreyttur og skemmtilegur.

Edda hefur til að mynda leikið í nítján áramótaskaupum á ferlinum, því fyrsta skömmu eftir útskrift úr leiklistaskóla. Þar birtist hún ásamt Sigurði Sigurjónssyni sem þá var líka að stíga sín fyrstu skref, og hlaut heldur óblíðar viðtökur hjá gagnrýnanda Mánudagsblaðsins.

„Honum fannst þetta ömurlegt, og viðbjóðslegt, og skildi ekki hvað væri verið að draga fram þessi börn sem væru ekkert fyndin,“ segir Edda brosandi.

Þrátt fyrir að hafa tekið gagnrýninni með bros á vör var Edda ekki ónæm fyrir henni. „Ég man eftir viðtölum þar sem ég sagðist ekkert taka gagnrýni nærri mér en það var svo mikil lygi. Ég tók hana hroðalega inn á mig og grét úr mér augun.“

Edda lék í sínu síðasta skaupi nú um áramótin. Menn hafa enn jafn sterkar skoðanir á þessu sjónvarpsefni og þegar Edda var að stíga sín fyrstu skref, en hún tekur það ekki jafn nærri sér og áður.

„Mér er bara alveg sama. Ég á fimm þúsund vini á Facebook, og ef einhver var sérstaklega dónalegur urðu þeir bara 4999. En ef einhver sagðist bara ekki geta hlegið að þessu þá er það allt í lagi. Við hlægjum að mismunandi hlutum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×