Innlent

Gunnar byrjar að predika eftir 4 ára hlé: „Það er þorsti eftir orði guðs“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gunnar Þorsteinsson ákvað að byrja að predika á Facebook eftir hvatningu frá eiginkonu sinni. Hann segist velja umræðuefnið út frá því sem grípur hann hverju sinni en nú þegar hefur hann rætt sig, líf sitt, losta og fjölmiðla.
Gunnar Þorsteinsson ákvað að byrja að predika á Facebook eftir hvatningu frá eiginkonu sinni. Hann segist velja umræðuefnið út frá því sem grípur hann hverju sinni en nú þegar hefur hann rætt sig, líf sitt, losta og fjölmiðla. vísir/anton brink

Gunnar Þorsteinsson er byrjaður að predika á ný eftir fjögurra ára hlé. Predikanir hans verða fimm til sjö daga í viku á opinberum vettvangi, Facebook. Þar mun hann ræða allt milli himins á jarðar og vonast til að ná til sem flestra.



Eiginkonan hvatningin

Gunnar, sem gjarnan er kenndur við Krossinn, stofnaði Facebook-síðuna Predikanir Gunnars Þorsteinssonar nú á laugardag og hafa um þrjú hundruð gert síðuna að sínu ánægjuefni. Í samtali við Vísi segist Gunnar alltaf hafa haft þörf til að tala orði Guðs. Örlítil hvatning frá eiginkonunni, Jónínu Benediktsdóttir, hafi svo orðið til þess að hann lét af því verða og byrjaði að lesa inn stutta pistla á sinni persónulegu Facebook-síðu.

Jónína Benediktsdóttir, eiginkona Gunnars, hvatti hann til að fylgja kölluninni.vísir/ernir

„Ég ákvað að fylgja þeirri köllun sem í brjósti mínu býr. Jónína hvatti mig til þess að gera þetta fyrir um tveimur vikum síðan og voru viðbrögðin gríðarleg. Það kom mér svakalega á óvart. En það er þorsti eftir orði Guðs og sannarlega þörf fyrir boðun fagnaðarerindisins samkvæmt hinum hreina tóni að ofan,“ segir Gunnar.



Tilfinningar, losti og kynlíf

Gunnar hefur rætt ýmislegt í myndböndum sínum á Facebook og segist velja umræðuefnið út frá því sem grípur hann hverju sinni. Hans ævi og ævistarf er þar á meðal en pistill hans um losta, tilfinningar kvenna og kynlíf hefur vakið hvað mesta athygli. Einnig hefur hann fjallað um fjölmiðlamenn og fréttaflutning af hinum ýmsu málum.



„Ég tel að þessi vettvangur sé afar góður og það er gríðarleg þörf fyrir að boða orð guðs, og mikill þorsti eftir orði guðs. Þessi vettvangur er aðgengilegur og síðan er þetta gagnvirkt að ég heyri í fólki á þessari síðu líka,“ segir hann.



Gunnar var forstöðumaður og framkvæmdastjóri Krossins um áratugaskeið en var í júní í fyrra vikið úr trúfélaginu. Nafninu var jafnframt breytt úr Krossinum í Smárakirkju. Aðspurður hvort hann hyggist stofna nýtt trúfélag segir hann: „Það verður bara að koma í ljós,“ en bætti við að hann væri verulega ósáttur við stöðu mála.



„Krossinn var mjög öflugt trúfélag sem hafði mótandi áhrif á líf fjölmargra um áratugaskeið. En slík vinna er ekki í gangi í dag,“ segir Gunnar.



Myndbönd Gunnars má sjá hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

Gunnar vill samtals 10 milljónir frá Krosskonum

Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður í Krossinum, krefst þess að talskonur Krosskvenna, Ásta Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal, greiði honum hvor um sig greiði honum 5 milljónir króna í skaðabætur. Þá krefst hann þess að Vefpressan, útgefandi vefritsins Pressunnar greiði sér fimm milljónir vegna umfjöllunar um ásakana kvennana um kynferðisofbeldi. Lögreglan lét rannsókn á máli Gunnars niður falla svo ekki kom til ákæru.

Gunnar og Jónína ekki að stofna nýtt trúfélag

"Nei, það er ekki rétt,“ segir Gunnar Þorsteinsson í Krossinum, spurður hvort að hann ásamt eiginkonu sinni, Jónínu Benediktsdóttur, undirbúi stofnun nýs trúfélags. Í helgarblaði DV var sagt frá því að miklar deilur væru innan Krossins og sjálfur stofnandinn, Gunnar, væri að undirbúa stofnun nýs trúfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×