Skoðun

Höft hefta

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um gjaldeyrishöft og þann skaða sem þau valda íslenskum fyrirtækjum. Tilefnið var sala á einu myndarlegasta iðnfyrirtæki landsins til erlendra eigenda og flutningur höfuðstöðva fyrirtækisins frá Íslandi.

Þó að framleiðsla fyrirtækisins verði áfram hér á landi eru þetta sorgleg tíðindi fyrir íslenskan iðnað. Margoft hefur verið bent á skaðsemi gjaldeyrishafta fyrir íslenskt efnahagslíf og er þetta því miður dæmi um að það er ekki að ástæðulausu.

Líklega var það skynsöm ráðstöfun að setja gjaldeyrishöftin á enda var þeim ætlað að bregðast við fyrirsjáanlegum bráðavanda og frekara hruni krónunnar. Nú eru sex árin liðin og þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda bólar ekkert á raunverulegri áætlun um afnám þeirra. Íslensk fyrirtæki hafa sýnt mikla seiglu en á einhverjum tímapunkti þrýtur þolinmæðina. Þann punkt nálgumst við óðfluga.

Fyrirtæki sem þurfa að vaxa geta það einfaldlega ekki í lokuðu haftahagkerfi. Gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir nauðsynlegan efnahagsbata og gera okkur ókleift að nýta fjármagn til framþróunar. Vegna haftanna er framleiðni fjármagns alltof lítil.

Það er ljóst að mörg fyrirtæki finna ekki svo gjörla fyrir höftum í daglegum rekstri. Á það einkum við um fyrirtæki sem starfa á heimamarkaði. Önnur fyrirtæki, sérstaklega þau sem eru í sérhæfðri starfsemi svo sem tækni og hugviti, þurfa að horfa út fyrir túngarðinn til að geta vaxið og dafnað. Þetta eru oft og tíðum vaxtarsprotar framtíðarinnar.

Höftin hafa ekki bara hamlandi áhrif á nýsköpun og sprotafyrirtæki heldur einnig á fyrirtæki í hefðbundnum iðnaði eins og dæmin sanna. Viðskiptalíf í höftum getur aldrei blómstrað til lengdar enda fela þau í sér skert samkeppnisumhverfi fyrirtækja okkar. Ísland er að missa af vaxtartækifærum og tapa frá landinu ungu og hæfileikaríku fólki sem hér vill starfa og lifa. Því verðum við sem þjóð að skapa ungu, vel menntuðu fólki vaxtarskilyrði sambærileg þeim sem eru í löndunum í kringum okkur.

Það er löngu tímabært að bregðast við. Látum ekki höftin hefta vöxt iðnaðar á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×