Viðskipti innlent

Sveinn Andri segir hugmyndir Frosta um Landsbankann galnar

ingvar haraldsson skrifar
Sveinn Andri telur hugmyndir Frosta um að gera Landsbankann að samfélagsbanka vart framkvæmanlegar.
Sveinn Andri telur hugmyndir Frosta um að gera Landsbankann að samfélagsbanka vart framkvæmanlegar. vísir/vilhelm/pjetur/gva
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir hugmyndir Frosta Sigurjónssonar þingmanns Framsóknarflokksins um að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka galnar og merki um pólitíska geðveiki og fortíðarþráhyggju.

Á Landsfundi Framsóknarflokksins um helgina talaði Frosti fyrir því að Landsbankinn yrði áfram í ríkiseigu, rekinn sem samfélagsbanki, sem mynd bjóða bestu kjör á landsvísu án þess þó að vera rekinn með tapi. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Sveinn Andri bendir á að þetta myndi rústa samkeppni á bankamarkaði. „Það er morgunljóst að aðrir bankar næðu aldrei að keppa við þennan banka á jafnræðisgrundvelli ef það ætti að niðurgreiða vexti. Ef bankinn ætti ekki að vera rekinn með hagnaði heldur bara á núllinu þá blasir það við að hann myndi bjóða lægri vexti en þeir bankar sem reknir eru með hagnaði. Viðskiptavinir hinna bankanna myndu þá þyrpast að bankanum. Hann hefur takmarkað fé til þess að lána út þar sem það er ekki mikill vaxtamunur hjá honum,“ segir Sveinn Andri.

Að mati Sveins Andra kæmi það þá „í hlut kommissara að ákveði hverjir fengju niðurgreidd lán frá bankanum hans Frosta,“ þar sem fé til útlána væri takmarkað. Það væri afturhvarf til fyrri tíma þegar bankarnir skömmtuðu vildarvinum lánsfé.

Fjárfesting ríkisins myndi þurrkast  út

„Þetta er svo galið. Þessir 200 milljarðar sem ríkið setti í bankann myndu þurrkast út á einni nóttu. Í besta falli myndu þeir ekki hafa neinn arð af rekstri bankans eins og hann hefur haft undanfarið. Mesta áhyggjuefnið er að ef þessu yrði hrint í framkvæmd yrði bankinn einskis virði á einni nóttu. Þá myndu menn aldrei geta fengið til baka það sem ríkið hefur lagt í bankann með því að einkavæða bankann síðar. Það er þá bara farið. Það eru náttúrulega svo stórkostlegir fjármunir í þessu,“ segir Sveinn Andri.

Stæðist ekki reglur ESB um ríkisaðstoð

Sveinn Andri bendir einnig á að hugmyndin stæðist ekki samkeppnisreglur ESB. „Eftirlitsstofnun ESA væri kominn á okkur eins og skot. Þetta er skólabókadæmi um ólögmæta ríkisaðstoð þar sem ríkið væri með niðurgreiddum hætti í samkeppni við erlenda og innlenda banka,“ segir Sveinn Andri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×