Innlent

Noregskonungur óvænt í Njarðvík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Noregskonungur skoðaði víkingaskipið Íslending í fylgd forseta Íslands í Njarðvík nú síðdegis. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld voru sýndar myndir af þessari óvæntu konungsheimsókn.

Fánar Íslands og Noregs höfðu verið dregnir að hún við Víkingaheima og brátt birtist bílalest í lögreglufylgd. Haraldur Noregskonungur hafði lent á Keflavíkurflugvelli með vél Icelandair frá Osló, hugðist svo fljúga áfram með félaginu vestur um haf til Seattle einum og hálfum tíma síðar og ákvað konungur að þiggja gamalt boð forseta Íslands um að nýta stutt stopp til að sjá eitthvað áhugavert á Íslandi.

Forsetinn bauð því Noregskonungi að skoða víkingaskipið Íslending í Innri-Njarðvík undir leiðsögn skipasmiðsins Gunnars Marels Eggertssonar en fyrirmynd þess er einmitt hið fræga norska Gauksstaðaskip. Að sögn Gunnars lýsti Noregskonungur ánægju með hvernig skipið tengdi löndin saman. Konungur flaug svo á sjötta tímanum áleiðis til vesturstrandar Bandaríkjanna, í sex daga heimsókn til Washington-ríkis og Alaska. 

Ljósmyndir af þjóðhöfðingjunum með Gunnari Marel um borð í Íslendingi má sjá hér á heimasíðu forsetaembættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×