Innlent

Segir sig úr nefnd í Sjálfstæðisflokknum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn mun styðja tillögu um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Sjálfstæðisflokkurinn mun styðja tillögu um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fréttablaðið/Valli
Baldur Dýrfjörð, upplýsingafulltrúi Norðurorku, hefur sagt sig úr stjórn utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins vegna ósættis við flokkinn um afstöðu gagnvart Evrópusambandinu. „Ég er óánægður með formanninn, hann tilkynnti í fyrradag að hann ætlaði að styðja frumvarpið sem utanríkisráðherra hyggst leggja fram með sama hætti og síðast þegar það kom fram,“ segir Baldur.

Baldur segir slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið svik við kosningaloforð, flokkurinn hafi lofað því í aðdraganda kosninga að leyfa þjóðinni að kjósa um málið.

Baldur segir þó enn óljóst hvort hann muni ganga alla leið og segja sig úr flokknum verði tillagan samþykkt. „Mér er afskaplega óljúft að segja mig úr flokknum, en það verður bara að koma í ljós.“

Ýmsir sjálfstæðismenn, sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið, hafa tjáð sig um að óskynsamlegt sé að slíta viðræðunum formlega. Þannig skrifaði Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, á Fésbókarsíðu sína að hann skildi ekki tilganginn með því að draga umsóknina til baka. „Óttast Framsóknarflokkurinn að við munum óvart ganga í ESB ef það verður ekki gert?“ skrifar Davíð.

Undir tekur Friðjón Friðjónsson, almannatengill og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar: „Ég er alfarið á móti inngöngu í ESB en skil illa pólitíkina við afturköllunina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×