Innlent

Dýpkun Landeyjahafnar hefur kostað 1,1 milljarð

ingvar haraldsson skrifar
„Þetta er miklu meira en reiknað var með,“ segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, um kostnað við dýpkun Landeyjahafnar. Frá því höfnin var opnuð um mitt ár 2010 hefur 1,1 milljarði króna verið varið til dýpkunarframkvæmda.

Dæling farið 8-10 sinnum framúr áætlun

Í rekstraráætlun sem gerð var þegar ákveðið var að byggja höfnina var miðað við að dæla þyrfti upp 30 þúsund rúmmetrum af sandi á ári. Sigurður segir þó að þegar höfnin var kynnt hafi verið gert ráð fyrir að magnið gæti orðið tvöfalt til þrefalt meira.

Raunin hefur verið sú að dæla hefur þurft upp milli 250 og 300 þúsund rúmmetrum af sandi upp úr höfninni á ári síðastliðin ár. Því hefur þurft að dæla átta til tíu sinnum meira af sandi en gert var ráð fyrir í upphafi.

Sigurður segir að í þessum reikningum hafi verið gert ráð fyrir nýjum Herjólfi sem risti ekki eins mikið. „Mesti munurinn á áætlun og því sem reyndin varð felst í að dýpka þarf mikið meira fyrir Herjólf en nýja ferju.“

Skilningur á sandburði takmarkaður

Þá segir Sigurður að horfast verði í augu við að skilningur manna á sandburði sé ófullkominn og því hafi alltaf verið gert ráð fyrir skekkju í útreikningunum.

Nýr Herjólfur sem nú er á teikniborðinu á að rista 2,8 metra en dýpið í hafnarmynni Landeyjahafnar er nú 2,6 metrar. Sigurður segir þó að ferjan gæti siglt um höfnina á flóði.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir forsendu fyrir smíði nýs skips vera að vandi Landeyjahafnar verði leystur. „Það er engin ástæða til þess að smíða nýtt skip fyrr en menn eru búnir að ákveða að laga höfnina,“ segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×