Lífið

Talað tungum á tungumálastefnumóti

Mathilde Braddock og Steinunn Friðriksdóttir
Mathilde Braddock og Steinunn Friðriksdóttir Vísir/GVA
Mathilde Braddock, nemandi í Háskóla Íslands, er ein af skipuleggjendum viðburðarins Date a Language eða Stefnumót við tungumál.

„Þetta er í annað sinn sem við höldum þennan viðburð, en tilgangurinn með þessu er að tengja saman erlenda aðila sem vilja læra íslensku og svo Íslendinga sem vilja læra tungumál erlenda aðilans,“ segir Braddock, en hún er sjálf frá Bristol í Englandi.

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Café Lingua, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og nemendur Háskóla Íslands. Gestum er skipt niður eftir tungumálum. „Við skiptum tungumálunum niður á borð, þannig að til dæmis þeir sem vilja tala japönsku fara á japanska borðið. Svo sest fólk bara niður og byrjar að spjalla. Barinn er opinn og oft hjálpar það til,“ segir hún og hlær.

Sjálf eignaðist hún vini á síðasta kvöldi frá Ítalíu. „Ég veit ekki hvort fleiri héldu sambandi eða hvort einhver ástarsambönd hafi orðið til, ég hef að minnsta kosti ekki frétt af því, en spurning hvað gerist núna.“

Það eru allir velkomnir á viðburðinn, þann 5. febrúar klukkan 16.30 í Stúdentakjallaranum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×