Lífið

Það er gefandi að sjá nemendur blómstra

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ólafur og Ólöf hafa gaman af því að halda námskeiðin.
Ólafur og Ólöf hafa gaman af því að halda námskeiðin. Vísir/Vilhelm
„Þetta er leiklist með sjálfstyrkingar ívafi, alls konar æfingar sem eru leiklistaræfingar og eru til þess gerðar að opna fyrir sköpunarflæðið og sköpunarkraftinn hjá fólki,“ segir Ólöf Sverrisdóttir leikkona, sem ásamt Ólafi Guðmundssyni leikara hefur staðið fyrir leiklistarnámskeiðum fyrir fullorðna síðan árið 2008. 

Námskeiðið er ekki einungis ætlað þeim sem hyggja á frekara leiklistarnám heldur ekki síður þeim sem vilja losa um hömlur, skemmta sér og fá útrás fyrir sköpunarkraftinn.

„Það er alltaf eitthvað af ungu fólki sem jafnvel ætlar sér að fara í leiklistarskóla og er að sækja um erlendis eða hér heima og svo er þetta bara fólk á öllum aldri.“

Námskeiðið er opið öllum þeim sem eru eldri en sautján ára en Ólöf segir að þeim Ólafi hafi fundist vanta leiklistarnámskeið fyrir fólk á fullorðinsaldri.

„Áður en ég fór sjálf í leiklistarskólann var Helgi Skúlason alltaf með svona námskeið, þá var ég í háskólanum og fór á svona námskeið hjá honum, þá var þetta fólk á öllum aldri og öllum fannst svo gaman,“ segir hún og bætir við: „Þá hugsaði ég: Já, þetta er eitthvað sem vantar. Þegar ég byrjaði með námskeiðin þá var ekkert svona í gangi þannig að maður fann það alveg að það var akkúrat þörf á þessu.“

Fólk á öllum aldri hefur skráð sig á námskeiði. „Það er ein sjötug sem er að byrja núna og alveg niður í tuttugu og tveggja ára. Þannig að þetta er víður aldur.“

Hún segir leiklistina til margs nýtilega, meðal annars til þess að hjálpa fólki að takast á við feimni og þau Ólafur sjái nemendurna lifna við fyrir framan sig.

„Við erum voða ánægð með okkur og það sem gefur okkur mest er að sjá fólkið blómstra fyrir framan augunum á okkur. Maður sér bara með hverjum tímanum að fólk er að koma út úr skelinni og verða flottara, sterkara og slakara,“ segir hún glöð í bragði og bætir við að það sé aðalástæðan fyrir því að hún hafi svo mikla ánægju af að halda námskeiðin.

„Manni finnst maður bara hafa eitthvað að gefa. Þetta er ekki bara leiklistarnámskeið, þó að það sé gaman og gefi helling þá er þetta fyrir hvern sem er, þá sem eru jafnvel feimnir og þurfa á þessu að halda.“

Næsta námskeið hefst á morgun klukkan 20.15 í Engjateigi 1 og nánari upplýsingar um skráningu má nálgast á netfanginu iceolof@hotmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×