Viðskipti innlent

Kynna nýjar tillögur að breytingum á Seðlabanka fyrir næstu mánaðamót

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur sagt að óvíst sé hvort hann muni sækja um stöðu seðlabankastjóra að nýju, verði starfið auglýst.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur sagt að óvíst sé hvort hann muni sækja um stöðu seðlabankastjóra að nýju, verði starfið auglýst. Vísir/Daníel
Nefnd sem vinnur að breytingum á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands áformar að skila Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, tillögunum áður en febrúar er á enda.

Í þingmálaskrá kemur fram að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hyggst leggja fram frumvarp um málið á Alþingi ekki síðar en 26. mars.

Þráinn Eggertsson, hagfræðingur og formaður nefndarinnar, segir að nefndin sé ekki komin að endanlegri niðurstöðu. Hugmyndir verði kynntar fulltrúum stjórnmálaflokkanna og aðila atvinnulífsins áður en þær verði kynntar formlega.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009 voru gerðar breytingar á lögum um Seðlabankann. Seðlabankastjórum var fækkað úr þremur í einn. Peningastefnunefnd var stofnuð sem hefur það hlutverk að taka ákvörðun um vexti bankans.

Í maí í fyrra skipaði Bjarni Benediktsson nefnd sérfræðinga um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Í nefndina voru skipuð, auk Þráins, þau Ólöf Nordal lögfræðingur sem nú er innanríkisráðherra og Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Upphaflega var áætlað að nefndin skilaði frumvarpi til nýrra laga fyrir síðustu áramót, en það varð ekki að veruleika. Þegar Bjarni skipaði nefndina sagði hann hugsanlegt að fjölga seðlabankastjórum aftur úr einum í þrjá. Í skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, frá því 19. desember síðastliðinn, kemur fram að það sé mikilvægt að varðveita sjálfstæði og trúverðugleika Seðlabankans. „Ný löggjöf um heildarskipulag Seðlabankans ætti að byggja á þeim umbótum sem voru gerðar árið 2009, með peningastefnunefnd og gegnsæjum og áreiðanlegum ákvörðunum. Fjárhagslega traustur, sjálfstæður og áreiðanlegur seðlabanki gerir stefnumótun betri. Það leiðir til efnahagslegs stöðugleika og vaxtar,“ segir í skýrslunni.

Þráinn Eggertsson segir að enda þótt nefndin hafi lagt mikla vinnu í mótun tillagna þá sé enn eftir að velja á milli valkosta sem séu fyrir hendi. Hann segir að nefndin hafi talað við starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem komu í desember. Það verði rætt við þá aftur í febrúar og grein gerð fyrir hugmyndum nefndarinnar.

Þá starfar nefndin einnig með nefnd þingmanna sem skipuð er einum þingmanni úr hverjum þingflokki. „Þeir eru samstarfsaðilar og svo hefur verið samstarf við seðlabankann sjálfan,“ segir Þráinn.

Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri þann 15. ágúst síðastliðinn.

Í skipunarbréfi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi Má í maí kom fram að tillögur nefndar um endurskoðun á lögum um bankann gætu leitt til breytinga á stjórnskipulagi sem myndu hafa áhrif á störf Más hjá bankanum.

Már brást við þessum orðum með því að upplýsa að hann hafi í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis. „Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum,“ sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×