Innlent

Matvörur fyrir börn oft óæskilegar

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Ef fjölskylda ætlar að fá sér 500 g af blandi í poka og drekka með því einn lítra af kók hefur hún neytt sem nemur 179 sykurmolum.
Ef fjölskylda ætlar að fá sér 500 g af blandi í poka og drekka með því einn lítra af kók hefur hún neytt sem nemur 179 sykurmolum.
Embætti landlæknis stendur fyrir árlegri tannverndarviku 2. til 7. febrúar í samstarfi við Tannlæknafélag Ísland og þetta árið er hún helguð því að kynna landsmönnum mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu undir kjörorðinu Sjaldan sætindi og í litlu magni. Meðal sykurneysla hvers Íslendings nemur 60 kílóum á ári. Náttúrulækningafélag Íslands benti á fyrir nokkru að neysluhlutfall barna væri jafnvel enn hærra en hjá fullorðnum.

Embætti landlæknis hefur opnað nýjan vef, sykurmagn.is, þar sem er að finna myndrænar upplýsingar um viðbættan sykur í ýmsum matvælum, einkum sætindum og sykruðum gos- og svaladrykkjum.

Markmið síðunnar er að efla færni barna og foreldra þeirra í fæðuvali. Matvörur sem eru sérstaklega markaðssettar fyrir börn eru oft og tíðum ekki þær æskilegustu fyrir þau. Nokkur dæmi eru tekin á síðunni, þar má til dæmis sjá að í 250 ml fernu af Svala með appelsínubragði er sem nemur 9 sykurmolum en hver sykurmoli er 2 grömm. Í 100 ml af drykknum eru 7,2 grömm af viðbættum sykri.

Í tilefni átaksins var gefið út myndbandið Sykur á borðum, í því er litið inn hjá fjölskyldu sem ætlar að eiga notalega stund við sjónvarpið. Myndbandið verður aðgengilegt á vef Embættis landlæknis á síðunni Tannvernd og á að verða til vitundarvakningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×