Íslenski boltinn

Fór af stað með einum tölvupósti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Arna Sif marga fjöruna sopið og spilað með Þór/KA síðan hún var aðeins fimmtán ára gömul.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Arna Sif marga fjöruna sopið og spilað með Þór/KA síðan hún var aðeins fimmtán ára gömul. vísir/Valli
Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, er mætt til Gautaborgar FC í samnefndri borg í Svíþjóð og mun hún æfa með liðinu í eina viku og spila æfingaleik á sunnudaginn.

Gautaborgarliðið hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, en um er að ræða eina sterkustu deild Evrópu.

„Ég fékk tölvupóst frá umboðsmanni sem sagðist vera að leita að miðverði fyrir lið í Svíþjóð og spurði mig hvort ég væri samningslaus og hefði áhuga,“ segir Arna Sif við Fréttablaðið um aðdragandann.

„Ég er samningslaus og sagði þetta vera mjög spennandi fyrir mig því stefnan hefur alltaf verið að fara út. Þjálfari Gautaborgar hefur verið að hringja í mig og við ákváðum að ég myndi fara út og skoða aðstæður, æfa með liðinu o sjá svo hvernig fer.“

Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gömul hefur Arna Sif spilað með Þór/KA síðan hún var 15 ára og er fyrirliði liðsins. Hún leiddi sitt lið til sigurs á Íslandsmótinu 2012 og á að baki tvo landsleiki fyrir Ísland. Hún vill að þeir verði fleiri í framtíðinni og telur að þetta skref gæti hjálpað sér.

„Ég fer með opnum hug og geri mitt besta. Þetta hefur alltaf verið markmiðið og hjálpar mér algjörlega hvað varðar landsliðið,“ segir Arna Sif Ásgrímsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×