Lífið

Teikning dótturinnar endaði sem húðflúr

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhann Kristinn Jóhannsson og Emilía Rós Jóhannsdóttir ætla líklega að leita sér að flottum hamstri en hann rataði inn á myndina sem Emilía Rós teiknaði fyrir pabba sinn.
Jóhann Kristinn Jóhannsson og Emilía Rós Jóhannsdóttir ætla líklega að leita sér að flottum hamstri en hann rataði inn á myndina sem Emilía Rós teiknaði fyrir pabba sinn. vísir/valli
„Ég er mjög ánægður með tattúið, hún kann þetta stelpan,“ segir Jóhann Kristinn Jóhannsson, en hann fékk sér fyrir skömmu tattú sem dóttir hans, hin átta ára Emilía Rós Jóhannsdóttir, teiknaði.

Jóhann Kristinn, sem kallar sig Jóhann Prinsessupabba á Facebook að beiðni dóttur sinnar, segist hafa spurt dóttur sína á sunnudegi hvort hún vildi teikna mynd af þeim feðginum sem hann ætlaði svo að flúra á sig. „Ég sagði henni að teikna okkur saman. Hún heldur þó á hamstri í búri á myndinni,“ segir Jóhann.

Þau eiga þó ekki hamstur og því ekki ólíklegt að dulin skilaboð sé að finna í teikningu dótturinnar. „Hana langar augljóslega í hamstur,“ bætir Jóhann við og hlær. Feðginin voru einmitt að huga að því að koma við í dýrabúð og skoða hamstra þegar blaðamaður náði tali af þeim.

Flúrið er um það bil 13 sentímetra langt og er á handlegg Jóhanns. „Hún á hendurnar mínar. Ég er með nafnið hennar á vinstri hendinni og svo teikninguna hennar á hægri hendinni.“

flott flúr
Dagur Gunnarsson hjá Bleksmiðjunni sá um að flúra verkið á handlegg Jóhanns. „Honum fannst þetta virkilega flott. Hann sagði þó að hann hefði ekki flúrað teikningu barna oft á foreldra þeirra.“ 

Jóhann segir vel koma til greina að láta flúra á sig fleiri teikningar dóttur sinnar. „Ég væri alveg til í fleiri tattú eftir hana. Hún fær alveg að ráða hvernig næsta tattú verður, ég treysti henni svo vel,“ bætir hann við. 

Tattúið er það sjöunda sem hann fær sér en þó það fyrsta sem Emilía Rós teiknar.

Jóhann segist þó ekki vera mikill teiknari og að hinir listrænu hæfileikar dóttur sinnar komi alfarið frá móður hennar. „Ég gæti örugglega ekki teiknað mynd til að bjarga lífi mínu,“ segir hann og hlær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×