Lífið

Fengum söng og súkkulaðiköku

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þegar ég var tvítugur ákváðu félagar mínir að viðeigandi væri að fá vaxtarræktarkonu til að dansa, það var meira sérkennilegt en nokkuð annað, ég vona að þeir hringi ekki í hana núna,“ segir Ingólfur Bjarni.
"Þegar ég var tvítugur ákváðu félagar mínir að viðeigandi væri að fá vaxtarræktarkonu til að dansa, það var meira sérkennilegt en nokkuð annað, ég vona að þeir hringi ekki í hana núna,“ segir Ingólfur Bjarni. Vísir/GVA
„Ég vona að einhvernsstaðar finnist laust borð í kvöld, þetta er allt frekar óskipulagt hjá mér ennþá,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður léttur þegar forvitnast er um hátíðahöld dagsins hjá honum fertugum.

Beðinn að rifja upp eitthvert fríkað afmælispartí fer hann í huganum tuttugu ár aftur í tímann.

„Þegar ég varð tvítugur ákváðu félagar mínir að viðeigandi væri að fá vaxtarræktarkonu til að dansa fyrir mig, það var meira sérkennilegt en nokkuð annað og ég vona að þeir hringi ekki í hana aftur núna!“

Einn daginn nú í vikunni kveðst Ingólfur Bjarni hafa dottið inn í óvænta afmælisveislu sem samstarfsfólk hans hélt á RÚV. „Við vorum þrjú sem áttum stórafmæli í sömu vikunni, við Andrea Róberts mannauðsstjóri fertug og Jónatan Garðarsson dagskrárgerðarmaður og Eurovisionpabbi sextugur. Við fengum söng og súkkulaðiköku.“

Þegar Ingólfur Bjarni er yfirheyrður um upprunann og ferilinn svarar hann: „Ætli það sé ekki heiðarlegast að segja að ég sé úr Breiðholti og Grafarvogi? Tók fyrstu tíu árin í Æsufellinu og var svo polli í Grafarvoginum að leika mér í húsgrunnum og við kofabyggingar. Fór svo í menntó niður í bæ og eftir stúdentspróf að vinna en síðan til Þýskalands í háskólanám. Þar bjó ég í sex ár og lærði stjórnmálafræði, blaðamennsku og bandarísk fræði.“

Fékkstu strax vinnu þegar þú komst heim?

„Ég náði ekki einu sinni að klára prófin. Tíu dögum fyrir síðasta próf hringdi Kalli Garðars sem var þá fréttastjóri á Stöð tvö í mig og spurði hvort ég væri ekki að verða búinn, það vantaði fólk á vaktir. Ég hefði örugglega reynt að troða mér einhvernsstaðar í fréttir en hvort ég hefði komið heim veit ég ekki, ef Kalli hefði ekki hringt.“

Ingólfur Bjarni kveðst hafa byrjað að vinna frílans fyrir Stöð 2 að utan og tekið sumarafleysingar þar og því hafi Kalli vitað af honum. Í dag gegnir Ingólfur Bjarni stöðu nýmiðlastjóra hjá Ríkisútvarpinu, og heldur meðal annars utan um ruv.is.

„Ég færði mig yfir á RÚV árið 2005, fékk tilboð og ákvað að prófa hvernig lífið væri þar. Nú er ég orðinn sanntrúaður Rúvari og eiginlega bara giftur vinnunni, vakna á morgnana, kem heim, fæ mér eitthvað að borða og fer að sofa. Svolítið sorglegt. En þetta er það sem mig langar að gera og það sem ég ætla að gera þannig að ég er í raun mjög heppinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×