Innlent

Föst sem varaformaður út af reglum um kynjakvóta

sveinn arnarsson skrifar
Svo virðist sem eftirsóknarvert sé að sitja fundi. Ekki hefur náðst samkomulag um hvaða kona eigi að taka við af Unni Brá Konráðsdóttur í ráðinu.
Svo virðist sem eftirsóknarvert sé að sitja fundi. Ekki hefur náðst samkomulag um hvaða kona eigi að taka við af Unni Brá Konráðsdóttur í ráðinu.
Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hefur ekki getað sótt fundi ráðsins frá árinu 2013. Brynjar Níelsson, varamaður hennar, hefur mætt á alla fundi ráðsins á árinu 2014, auk Karls Garðarssonar og Ögmundar Jónassonar. Unnur Brá vill losna undan skyldum sínum sem varaformaður og segist ekki geta sinnt þessu sökum anna en getur ekki losnað sökum reglna um kynjakvóta.

„Ég hef ekki getað sinnt þessu, það er alveg ljóst,“ segir Unnur Brá, sem jafnframt er formaður allsherjarnefndar þingsins sem og formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. „Ég get ekki komist yfir öll þessi störf. Ég hef óskað eftir því að komast út úr varaformennsku Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Með því að vera sitjandi varaformaður og mæta ekki lítur út fyrir að ég sé ekki að sinna vinnu minni, sem er alrangt,“ segir Unnur Brá. „Ég kemst ekki úr þessu embætti vegna þess að ég er kona og við þurfum að uppfylla reglur ráðsins um kynjakvóta.“

Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
Aðal- og varamenn jafnréttháir

Karl Garðarsson segir ekki verið að fara fram hjá reglum um kynjakvóta ráðsins. Unnur Brá hafi verið önnum kafin í öðrum verkefnum á árinu og því ekki komist á fundi ráðsins. „Það sem við verðum einnig að hafa í huga er að varamenn og aðalmenn eru jafn réttháir á Evrópuráðsþingunum. Sum ríki senda bæði aðalmenn og varamenn á fundina, en við höfum ekki haft fjármagn til þess. Það er ekki verið að fara fram hjá reglum um kynjakvóta með þessari skipan,“ segir Karl.

Brynhildur Pétursdóttir benti á þetta undir liðnum störf þingsins. Að hennar mati er verið að fara fram hjá reglunum. „Þessar reglur eru settar til að tryggja að bæði kynin eigi fulltrúa á vettvangi Evrópuráðsþingsins. Að skipa konu sem aðalmann sem sækir svo að segja enga fundi er einhver fjallabaksleið sem mér finnst út í hött. Ef okkur þykir á annað borð mikilvægt að taka þátt í þessu samstarfi þá virðum við að sjálfsögðu þær reglur sem um það gilda,“ segir Brynhildur.

Barist um sætið

Ástæða þess að Unnur kemst ekki úr varaformannsembættinu er sú að ekki hefur náðst samkomulag milli Framsóknarflokksins, VG og Sjálfstæðisflokksins um skipan í nefndina. Karl Garðarsson svaraði því til þann 2. júlí 2013 í þingsal, í fyrirspurn Ingibjargar Björnsdóttur, varaþingmanns Bjartrar framtíðar, að ekki hafi náðst samkomulag um hver flokkanna ætti að víkja sínum manni frá og koma konu í nefndina til að uppfylla reglur ráðsins um að skipa ætti aðalmenn af báðum kynjum. Nú telja sjálfstæðismenn komið að hinum flokkunum tveimur að skipa konu sem aðalmann því þeir hafi breytt skipan sinni árið 2013.

Brynjar Níelsson hafði sætaskipti við Unni Brá í byrjun hausts 2013 en það hefur lítil áhrif. Unnur brá hefur aðeins mætt einu sinni á fund þingsins.
Eftir Alþingiskosningar árið 2013 voru skipaðir þrír karlar í Íslandsdeild Evrópuráðsins, þeir Karl Garðarsson, Ögmundur Jónasson og Brynjar Níelsson. Sú skipan braut reglur ráðsins um kynjakvóta og því þurfti að skipta einhverjum karlanna út fyrir konu. Unnur Brá og Brynjar höfðu þar sætaskipti en síðan þá hefur Unnur Brá aðeins náð að komast á einn fund ráðsins, í september 2013.

Eftir miklu að slægjast

Fjölmargar utanlandsferðir fylgja því að vera í Íslandsdeild Evrópuráðsins. Fjórir fundir Evrópuráðsþingsins voru haldnir árið 2014 sem ná yfir fimm daga í hvert sinn. Einnig voru tveir stjórnarnefndarfundir þingsins haldnir á árinu, í Bakú og í Brussel, og sótti Karl Garðarsson þá fundi fyrir hönd Íslands sem formaður nefndarinnar. Einnig sótti Karl fundi utan þinga, einn í mars, annan í maí, tvo í septembermánuði, tvo í nóvember og svo tvo í desember. Ögmundur sat nefndarfundi utan þinga í mars, september, nóvember og desember.

Til viðbótar við nefndarfundi sinnti Karl Garðarsson eftirliti með forsetakosningum í Úkraínu 25. maí 2014 og þeir Ögmundur Jónasson sinntu báðir eftirliti með þingkosningum í Úkraínu 26. október 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×