Lífið

Tungumál sem allir skilja

magnús gunnarsson skrifar
duo landon Þau Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer flytja í dag nýtt verk eftir Báru Grímsdóttur.
duo landon Þau Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer flytja í dag nýtt verk eftir Báru Grímsdóttur. AÐSEND MYND
Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer mynda fiðludúettinn Duo Landon sem spilar á Háskólatónleikum í Kapellu Háskóla Íslands kl. 12.30 í dag. Martin Frewer hefur skipst á við Hjörleif Valsson með að leika í dúóinu en öll þrjú eiga þau það sameiginlegt að leika á fiðlur frá Christophe Landon. Á tónleikunum munu Hlíf og Martin frumflytja verk eftir Báru Grímsdóttur og verk eftir Sergei Prokofiev og Hildigunni Rúnarsdóttur.

„Þegar við Hjörleifur byrjuðum að vinna saman í Duo Landon komumst við að því að það voru aðeins til þrjú verk fyrir tvær fiðlur í íslensku flórunni og fannst að það þyrfti að bæta úr því. Í framhaldinu frumfluttum við verk eftir Atla Heimi, Hildigunni Rúnarsdóttur og Jónas Tómasson. Þar með var aukningin á íslenskum fiðludúettum orðin 100%. Í dag frumflytjum við svo eitt verk til en það er eftir Báru Grímsdóttur.

Stór hluti af því sem við erum að gera er að frumflytja ný íslensk verk og að baki slíkum flutningi liggur oft mikil vinna. Það er ánægjulegt að þessi vinna ber oft hróður landsins víða enda er tónlistin tungumál sem allir skilja og fólk tengist henni strax. Það er mikilvægt fyrir okkur að muna þetta og gæta vel að íslenskri tónlist og tónlistararfi. Það er nefnilega ekki nóg að byggja hús ef þar er svo ekki spilað og tónlistin gerð aðgengileg sem flestum.

Þannig er frumflutningurinn á verki Báru að sumu leyti til kominn vegna þess að við fengum tækifæri til þess að koma fram á Háskólatónleikum í dag og við vonum auðvitað að það komi sem flestir. Að auki ætlum við að spila Sergei Prokofiev og tvo kafla úr verki Hildigunnar Rúnarsdóttur. Tónleikarnir eru aðeins hálftíma langir þannig að við verðum að takmarka okkur, en fyrir vikið er þetta tilvalið fyrir alla tónlistarunnendur í dagsins önn enda kostar ekkert inn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×