Skoðun

Skoðanir barna og ungmenna skipta máli

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar
Ég hef fengið það hlutverk að vera einn af talsmönnum barna á Alþingi ásamt þingmönnum úr öllum flokkum er sæti eiga á Alþingi. Hlutverk okkar er fyrst og fremst að huga að áhrifum allra mála sem þingið fjallar um á börn og ungmenni.

Hópurinn var formlega stofnaður fyrir tilstuðlan UNICEF, Barnaheilla og Umboðsmanns barna, á 25 ára afmælishátíð Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Laugalækjarskóla þann 20. nóvember í fyrra.

Fyrsta verk hópsins var að sitja námskeið um Barnasáttmálann og í framhaldi af því var lögð fram þingsályktunartillaga um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Hún er nú til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd og fæst vonandi samþykkt í vor.

Nýlega héldu átta ungmenni á aldrinum 14–18 ára úr ungmennaráðum ásamt fulltrúum Unicef, Barnaheillum og umboðsmanni barna fund með fulltrúum velferðarnefndar Alþingis. Meðal þess sem þau lögðu áherslu á var þátttaka og réttindi barna og þar ræddu þau meðal annars um 12. grein barnasáttmálans og mikilvægi þess að fullorðnir hlusti á börn og ungmenni. Þau ræddu líka skólakerfið og menntun í víðari skilningi en þar lögðu þau m.a. áherslu á að öll börn fengju skólamáltíðir óháð fjárhag foreldra, og velferðarmál þar sem þau lögðu áherslu á geðheilbrigðismál.

Loks ræddu þau birtingarmyndir ofbeldis gegn börnum og mikilvægi forvarna tengdra því og einnig hvaða áhrif fátækt hefur á börn, m.a. möguleika þeirra til náms og tómstunda. Fundurinn, sem sendur var út í beinni útsendingu og finna má á heimasíðu Alþingis, var í alla staði frábær og ljóst að ekki þarf að kvíða framtíðinni með svo sköruleg ungmenni.

Segja má að allflest mál varði börn og ungmenni með einhverjum hætti og því mikilvægt að hafa þau með í ráðum enda búa þau yfir verðmætum upplýsingum og reynslu. Það er líka hlutverk okkar fullorðnu að hvetja þau og efla gagnrýna hugsun.

Því vil ég hvetja sveitarstjórnir og alþingismenn til að leita álits hjá ungmennaráðum um sem flest mál og víkka þar með sjóndeildarhring okkar fullorðnu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×