Lífið

Stóriðjukonur: Mýkja upp starfsandann

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sunna, Eyrún og Esther segja að þeim líði vel á vinnustaðnum og segja starfið fjölskylduvænt. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa litið til álversins í langan tíma og að hafa langað að starfa þar í framtíðinni.
Sunna, Eyrún og Esther segja að þeim líði vel á vinnustaðnum og segja starfið fjölskylduvænt. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa litið til álversins í langan tíma og að hafa langað að starfa þar í framtíðinni. vísir/Ernir
Það er eins og að keyra inn í lítið þorp að koma að Rio Tinto Alcan sem kallast í daglegu tali starfsmanna ÍSAL og í daglegu tali okkar hinna álverið í Straumsvík. Eftir að hafa horft á öryggismyndband, fengið hjálm, slopp og annan öryggisbúnað fáum við að fara inn á vinnusvæðið og hitta þar þrjár konur sem vinna hjá fyrirtækinu.

Esther, Eyrún og Sunna Björg eru allar í draumastarfi sínu og komnar ansi langt með starfsferilinn miðað við frekar ungan aldur. Esther er rafvirki, Eyrún er rafveitustjóri og Sunna Björg er framkvæmdastjóri rafgreiningar og situr því í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Konur eru 20 prósent starfsmanna en þær þvertaka þó allar fyrir að álverið sé karlavinnustaður.

Eyrún: Það eru miklu fleiri karlmenn sem vinna hérna en það er ekkert sem segir að þetta þurfi að vera karlavinnustaður.

Sunna: Konur geta algjörlega gengið í öll störf hérna. Í mínu tilfelli þekki ég ekkert annað þar sem ég hef unnið hér frá því ég var 18 ára. Maður hefur aldrei upplifað að vera kominn í rosa karlaumhverfi. En það er kannski öðruvísi með iðnaðarmennina.

Esther: Já, það vantar konur þar. Við erum aðeins þrjár konur í áttatíu manna hópi.

Eyrún: Ég held það tengist ekki vinnustaðnum. Það er frekar að það vanti kvenkyns iðnaðarmenn í samfélagið. Svo erum við reyndar allar búnar að vera í þannig námi að við höfum vanist því að vera í minnihluta.

Í steypustöðinni Eyrún, Esther og Sunna vinna á ólíkum stöðum í álverinu. Sunna og Eyrún deila tíma sínum á milli skrifborðsins og eftirlitsferða. Esther er aftur á móti á flakki um allt svæðið allan daginn. Í steypustöðinni er álið mótað í álstangir. fréttablaðið/ernir
Mýkja upp stemninguna

Þær segja að fólk hafi almennt mikinn áhuga á starfi þeirra og finnist það spennandi. Sumum finnist þær kannski svolítið töff. 

Eyrún: Mér skilst að ég sé fyrsta konan til að sinna starfi rafveitustjóra á Íslandi þannig að ég fékk smá svona „vó“ stemningu í kringum mig. En það er ekkert við þetta starf sem segir að karlmaður ætti að sinna því frekar en kona. 

En eru einhver störf í álverinu sem kona getur ekki sinnt? Snýst þetta einhvern tímann um líkamlegan styrk?

Esther: Já, kannski pínu. Til dæmis þegar ég þarf að lyfta rafmótorum, ég vippa þeim ekkert upp. En maður fer ansi langt á skapinu. Ekki það, það er voða gott að biðja um smá hjálp og það eru allir tillitssamir, ég er stundum svolítið eins og gömlu kallarnir. 

Eyrún: Einmitt, það eru líka fullorðnir karlmenn hérna sem hafa ekki sama líkamlega styrk. 

Sunna: Það er náttúrulega lykilatriði að vera með blandað kynjahlutfall. Fólk er með mismunandi styrkleika. 

Esther: Ég held að körlunum finnist þetta þægileg tilbreyting. Samskiptin verða öðruvísi. Til dæmis finn ég að þeir leita mikið til mín til að tala um börnin, hafa áhyggjur af þeim og þess háttar mál. Ég held þeir fari ekki hver til annars en þeir koma til mín. Í staðinn negla þeir mig ekki í öxlina. Það má segja að samskiptin séu á ljúfari nótum. 

Eyrún: Ég held að karlmenn þori kannski frekar að vera þeir sjálfir þegar konur eru líka hluti af hópnum. Þeir þora kannski að vera einlægari. 

Sunna: Það er gaman að sjá það í framleiðsludeildinni þar sem færri konur eru hvað þeim finnst gaman að fá konur til starfa. Það er mjög vel tekið á móti þeim og andrúmsloftið verður oft skemmtilegra. 

Eyrún: Já. Þarna eru einhverjar fyrirfram hugmyndir um hlutverk kynjanna. Konur mega vera opnar og einlægar en ekki karlar. Með blönduðum vinnustöðum þá næst kannski eitthvert jafnvægi. 

Eru sem sagt mikil samskipti? Er þetta sem sagt ekki verksmiðjuvinna þar sem maður er einn með framleiðslutækjunum?

 


Sunna: Nei, það eru mjög mikil mannleg samskipti og hópurinn vinnur mjög þétt saman. Samvinnan hér er rosalega öflug og hefur í raun eflst á síðustu árum enda hafa verið erfiðir tímar með lágu álverði. Hópurinn hefur bara þjappast saman. Störfin eru líka mjög fjölbreytt og skemmtileg. Þegar maður vinnur í framleiðslunni þá er engir tveir dagar eins og umhverfið er mjög lifandi. 

vísir/ernir
Vantar fyrirmyndir 

Fyrirtækið hefur verið með tölusett markmið síðustu tvö ár um að ráða fleiri konur. Aftur á móti hafa ekki öll markmið náðst enda of fáar konur sem sækja um. Sérstaklega gengur illa að auka hlut kvenna meðal iðnaðarmanna. Þarf að hvetja konur meira? 

Eyrún: Ég held að það vanti helst fyrirmyndirnar. Á meðan ég var að alast upp gegndu engar konur þessum störfum. Maður sér alltaf bara karla og umræðan er um iðnaðarmennina í karlkyni. Mér datt aldrei í hug að fara í rafvirkjun en núna þegar ég hef kynnst þessu og veit hvað rafvirkjarnir eru að gera þá sé ég hversu skemmtilegt starf þetta er. 

Esther: Já, þetta er mjög skemmtilegt. Ég er aldrei að gera sama hlutinn, alltaf á ferðinni, klifra upp á eitthvað og brasa, hitta alls konar fólk út um allt fyrirtæki og spjalla. Dagurinn er ótrúlega fljótur að líða. Það er ekki fyrir alla að sitja við skrifborð og það er sko alls ekki fyrir mig. En svo gæti þetta verið einhver hræðsla í stelpum, sumir eru svo hræddir við rafmagn og vélbúnað, en maður lærir bara á þetta. En já, ég held þetta snúist um að yfirstíga hræðsluna og fá fleiri fyrirmyndir. 

Sunna: Það þarf líka meiri fræðslu og upplýsingar. Kynna betur störfin og hvaða verkefni felast í þeim. Þetta eru bara venjuleg störf. 

Esther: Þegar nám er kynnt í grunnskólum þá er alltaf bara talað um bóknámsbrautir. Það er aldrei sagt: „Hei, stelpur. Komið og kíkið á vélvirkjabrautina.“ Aldrei. 

Sunna: Það er náttúrulega mikið menntasnobb á íslandi á þann hátt að iðnnám nýtur ekki sannmælis.

Forstjórinn tekur ákvörðun um jafnrétti

Og er þetta ykkar framtíðarstarf? Gengur vel að samþætta starf og fjölskyldu?

Eyrún: Það skiptir engu hvort þú ert karl eða kona hérna, hér er fjölskylduvæn starfsmannastefna. Það fara rútur klukkan átta og fjögur hingað. Þess vegna verður ramminn svo skýr. Hér er dagvinnan unnin frá átta til fjögur.

Sunna: Mörg fyrirtæki gefa sig út fyrir að vera fjölskylduvæn fyrirtæki. ÍSAL er virkilega fjölskylduvænt fyrirtæki. Það er lögð áhersla á að vinna átta tíma á dag og forstjórinn okkar er góð fyrirmynd þar. Það er frábært og rútuferðirnar hjálpa okkur að halda okkur við þennan tíma. Ég sat einu sinni til hálffimm og ég var þá strax spurð hvort ég ætlaði að vinna yfirvinnu. 

Eyrún: Rannveig sagði einu sinni á starfsmannafundi að við ættum ekki að vinna meira en átta tíma því við verðum að rækta fjölskyldu okkar. Af því að þegar við förum á elliheimili, þá heimsækir fjölskyldan okkur en ekki vinnan. Þetta fannst mér frábær punktur hjá henni. 

Haldið þið að það skipti máli að það er kona sem leiði fyrirtækið?

Eyrún: Ég held að það skipti ekki máli að hún er kona, heldur að hún sé manneskja sem er mjög meðvituð um að það þurfi að taka ákvörðun um að ná jafnrétti. Það að hún er kona hjálpar henni kannski að sjá mikilvægið en það er ekki grundvallaratriði.

vísir/ernir
Í háspennunni

Esther Gunnarsdóttir 26 ára

Menntun: Rafvirki



Starf:
 Rafveituvirki

Hvað þýðir það? Alls kyns verkefni víðs vegar á svæðinu tengd rafmagni og rafveitu. Vinnur þó helst verkefni tengd háspennu í aðveitustöð.

Esther ætlaði alltaf að verða iðnaðarmaður. Hún vann við byggingarvinnu frá 16 ára aldri og prófaði að fara í bóknám en fann strax að það var ekki fyrir hana.

Esther fór í rafvirkjanám í FB, á námssamning hjá ÍSAL í kjölfarið og hóf störf að námi og fæðingarorlofi loknu. Sextán rafvirkjar starfa hjá fyrirtækinu og þar af tvær konur.

visir/ernir
Fyrsti kvenkyns rafveitustjórinn

Eyrún Linnet 35 ára

Menntun: Rafmagnsverkfræðingur

Starf: Rafveitustjóri

Hvað þýðir það? Ber ábyrgð á rafveitunni og hefur umsjón með öllum búnaði þar. 

Eyrún sótti um starfið þegar það var auglýst árið 2011. Hún er fædd og uppalin í Hafnarfirði og hafði alltaf litið hýru auga til álversins. Þegar laust starf var auglýst 2011 sló hún til og hætti hjá Landsneti þar sem hún vann áður.

Eyrún byrjaði í stækkunarverkefni í kerskálum, fór svo að vinna sem staðgengill framkvæmdastjóra rafgreiningar en byrjaði um áraaót sem rafveitustjóri. Eyrún mun vera fyrsta konan til að sinna því starfi á Íslandi.

vísir/ernir
Úr mötuneytinu í framkvæmdarstjórn

Sunna B. Helgadóttir 31 árs

Menntun: B.Sc. í véla- og efnaverkfræði, M.Sc. í rekstarverkfræði. 

Starf: Framkvæmdastjóri rafgreiningar

Hvað þýðir það? Stýrir allri álframleiðslunni í kerskálum.

 

Sunna hefur unnið hjá ÍSAL í fjórtán ár en hún byrjaði hjá fyrirtækinu 18 ára sem sumarstarfsmaður í mötuneytinu. Hún fór yfir á vaktir í álframleiðslunni sem vakti áhuga hennar á starfinu og stýrði að einhverju leyti námsvali hennar.

Eftir masterspróf í verkfræði tók hún við framkvæmdastjórastarfinu og fetaði þar með í fótspor Rannveigar Rist sem sinnti starfinu í nokkra mánuði áður en hún varð forstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×