Lífið

Býður gestum að taka þátt

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Fjöldi tónlistaratriða verður á dagskránni á opna deginum í tónskóla eddu borg í dag. Fjölmargir skólar eru með opið hús og viðburði af því tilefni.
Fjöldi tónlistaratriða verður á dagskránni á opna deginum í tónskóla eddu borg í dag. Fjölmargir skólar eru með opið hús og viðburði af því tilefni. vísir/gva
„Þetta er svo skemmtilegt uppbrot frá því sem við erum að gera frá degi til dags,“ segir Edda Borg Ólafsdóttir skólastjóri í Tónskóla Eddu Borg. Í dag er Dagur tónlistarskólanna 2015 og eru tónlistarskólar landsins með margvíslega dagskrá af því tilefni og margir skólar með opið hús.

„Við bjóðum ykkur upp á fjölbreytta tónlistardagskrá, kaffi, djús og heitar vöfflur með rjóma. Við bjóðum alla velkomna, þetta er ekki bara fyrir nemendur, foreldra og aðstandendur þeirra, heldur eru allir velkomnir sem vilja kynna sér starf tónlistarskólans og hlusta á skemmtilega tónlist,“ segir Edda Borg um daginn í sínum skóla.

Dagur tónlistarskólanna er í febrúarmánuði ár hvert. Þá efna tónlistarskólarnir til hátíðar hver á sínum stað. Meðal viðburða má nefna opið hús, tónleika, hljóðfærakynningar og ýmiss konar námskeið. Þá heimsækja nemendur einnig aðra skóla, vinnustaði og heilbrigðisstofnanir í þeim tilgangi að flytja tónlist.

„Við ætlum að enda opna húsið á því að leyfa gestum okkar að vera þátttakendur í tónlistarflutningnum. Við verðum með litla hljómsveit og gestum okkar gefst tækifæri til þess að spila með henni, jafnvel þó þeir spili ekki á neitt hljóðfæri. Við gerðum þetta í fyrra og það var mjög skemmtilegt og fólk hafði gaman af þessu,“ segir Edda Borg.

Á Íslandi starfa um 90 tónlistarskólar og hjá þeim starfa um 900 kennarar og nemendur eru um 15.000 talsins. Fyrstu lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla voru sett 1963 og er nú kennt eftir samræmdum námskrám sem menntamálaráðuneytið gefur út. Í skólunum eiga nemendur kost á fjölbreyttu tónlistarnámi. Skólarnir gegna mikilvægu hlutverki í menningarlífi hvers byggðarlags.

Húsið verður opnað klukkan 13.00 í Tónskóla Eddu Borg en hægt er að grennslast fyrir um frekari opnunartíma og viðburði hjá heimasíðum tónlistarskólanna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×