Lífið

Spikið var alltaf að þvælast fyrir

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Anna þakkar þyngdartapið að mestu leyti breyttu matarræði.
Anna þakkar þyngdartapið að mestu leyti breyttu matarræði. Vísir/AndriMarinó
„Mér var bara farið að líða illa, var hætt að geta reimað skóna. Spikið var alltaf að þvælast fyrir,“ segir Anna Kristjánsdóttir vélfræðingur, en hún er jafnframt einn fyrsti Íslendingurinn sem gekkst undir kynleiðréttingu.

Fyrir sex mánuðum var Anna rúm níutíu og sjö kíló en hefur nú létt sig um tuttugu kíló. Þyngdartapið þakkar hún að mestu leyti breyttu mataræði. „Ég er á þessu svokallaða lágkolvetnafæði, tók út brauðið og kartöflurnar og bætti inn ávöxtum.“ Hún hefur þó ekki lifað neinu klaustuslífi að eigin sögn, fær sé sætindi þegar svo á við en gætir hófs.

Jafnframt segir hún að það sé talsvert ódýrara að sleppa því að kaupa brauð, því það sé dýrt. „Ég kalla þetta Bjarnakúrinn, borða fyrir 750 krónur á dag,“ segir Anna glöð í bragði.

Hún er hógvær yfir árangrinum og segir að fjölmargir í vinnunni hjá sér séu í svipuðu átaki. „Ég held að það sé búið að fækka bráðum um heilt stöðugildi hjá mér hérna á vaktinni, bara í formi kílóa. Þannig að það er heilmikill sparnaður í þessu,“ segir Anna hress en hún starfar hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Myndirnar eru teknar með rúmlega sex mánaða millibili, á því tímabili léttist Anna um rúm tuttugu kíló.Mynd/Anna
Til þess að hvetja sig áfram og verðlauna sig fyrir árangurinn pantaði hún sér utanlandsferð, en markið setur hún á að vera komin niður í sjötíu og fimm kíló í maí. „Ég er búin að panta mér ferð til Parísar í byrjun júní, þá á ég að vera komin í stand. Annars verð ég bara að hætta við ferðina, það væri alveg hræðilegt,“ segir hún og hlær.

Anna hefur barist við kílóin undanfarin fimmtán ár og prófað ýmislegt og er árangurinn núna sá besti sem hún hefur náð. „Þetta hefur gengið mun hraðar en ég ætlaði mér, þetta gekk það vel í byrjun að ég er talsvert á undan áætlun. Nú get ég reimað skóna með góðu móti,“ segir Anna glöð að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×