Lífið

Átthagafélögin takast á

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Gestir í sal taka þátt í pub quiz í kaffihléinu,“ segir Gauti sem hefur tögl og hagldir í spurningakeppni átthagafélaganna.
„Gestir í sal taka þátt í pub quiz í kaffihléinu,“ segir Gauti sem hefur tögl og hagldir í spurningakeppni átthagafélaganna. Fréttablaðið/Stefán
„Nítján félög taka þátt þetta árið. Þau voru sextán í fyrra og líka í hittiðfyrra, en samt ekki öll þau sömu,“ segir Gauti Eiríksson um spurningakeppni átthagafélaganna sem hann stjórnar nú þriðja árið í röð.

Keppnin verður haldin fjóra næstu fimmtudaga í Breiðfirðingabúð í Faxafeni 14, fyrir ofan Bónus,  og hefst öll kvöldin klukkan 20. Mikil spenna er jafnan í salnum að sögn Gauta, enda fær sigurliðið vegleg verðlaun.

Gauti segir keppninni svipa til Útsvars að því leyti að þrír séu í hverju liði og látbragðsleikur sé einn hluti hennar. Sjálfur er hann stjórnandi, dómari og höfundur spurninga, enda á hann um 10-15 þúsund spurningar á lager, eftir að hafa haldið keppnir í Álftamýrarskóla og á Reykhóladögum í áravís. Sumar þeirra snúast um myndir og margar myndanna tekur hann sjálfur því hann starfar sem leiðsögumaður á sumrin.

Gestir sem mæta í Breiðfirðingabúð til að fylgjast með fá líka að spreyta sig að sögn Gauta.

„Við höfum pub quiz í kaffihléinu. Smávinningar eru veittir á hverju kvöldi og á lokakvöldinu er dregið úr öllum réttum lausnum, þá er stærri vinningur. Í fyrra var það hótelgisting úti á landi og árið áður var flugmiði.“

Gauti segir aðgangsmiða vera númeraða og þeir sem mæti öll fjögur kvöldin og sýni miðana í lokin lendi líka í vinningspotti. Keppnirnar verða sýndar á ÍNN en þó ekki í beinni.

„Svo er Facebook-síða sem heitir spurningakeppni átthagafélaganna. Þar er hægt að fræðast um hverjir eru að keppa hverju sinni og þar eru bæði ég og fleiri að henda inn spurningum öðru hverju,“ segir Gauti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×