Innlent

Mótmæla yfirgangi stjórnvalda

Gefur yfirvöldum fingurinn. Mótmælin að þessu sinni voru sjálfsprottin.
Gefur yfirvöldum fingurinn. Mótmælin að þessu sinni voru sjálfsprottin. Fréttablaðið/Vilhelm
Lögregla var með viðbúnað vegna mótmæla sem boðað var til á Facebook „gegn valdníðslu stjórnvalda“ við Alþingishúsið síðdegis í gær. Um 300 manns mættu.

Um var að ræða þriðja mótmælafundinn síðan utanríkisráðherra sendi ráðamönnum umdeilt bréf um viðræðuslit við ESB. Matthías Freyr Matthíasson, einn aðstandenda mótmælanna, segir að hann og félagar hans hafi fengið hugmyndina fyrir helgi og mótmælin því ekki á vegum neinna samtaka.

„Fyrir mér er þetta tvíþætt. við erum að mótmæla brotum á kosningaloforðum. Formenn stjórnarflokkanna lofuðu því fyrir síðustu alþingiskosningar að kosið yrði um framhald aðildarviðræðna,“ segir Matthías. „Í öðru lagi erum við að mótmæla bréfi utanríkisráðherra til ESB. Utanríkisráðherra veit að hann getur ekki afgreitt málið á þinginu og fer þá bara fram hjá því. Þetta er ekkert nema hroki og yfirlæti og það skilur enginn neitt í þessu bréfi.“

Nálægt átta þúsund manns mættu síðastliðinn sunnudag á mótmæli á vegum hópsins Vor14. Á þeim fundi var skorað á þingmenn að standa vörð um þingræðið í landinu og afsagnar ríkisstjórnarinnar krafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×