Innlent

Tímamótasamningur að tengja við vísitölu

Verkafólk Norðuráls er að meðaltali með um 580 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Verkafólk Norðuráls er að meðaltali með um 580 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Starfsmenn Norðuráls fá 300 þúsund króna eingreiðslu og laun þeirra verða tengd launavísitölu í nýjum samningum sem náðust milli Norðuráls og starfsmanna. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir um tímamótasamning að ræða fyrir íslenskt verkafólk.

„Þetta hefur að mínu viti aldrei verið gert áður hjá verkafólki að vísitölutryggja laun. Nú er tryggt að okkar fólk situr ekki eftir í launaskriðinu,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Birgisson
Samið var um 300.000 króna eingreiðslu í samningnum sem gildir til 1. janúar 2019 og að kjör launamanna hjá Norðuráli verði tengd launavísitölu. „Sem dæmi hefur launavísitala frá aldamótum hækkað um 165,5 prósent á meðan launabreytingar verkafólks hafa hækkað um 68,6 prósent.“

Vilhjálmur segir samninginn geta verið fyrirmynd í viðræðum SA og SGS. Verði ekki samið skellur á verkfall 10. apríl. „Heildarlaun starfsmanna hjá Norðuráli eru um 580 þúsund krónur. Vandamálið á almennum vinnumarkaði er að launin þar eru töluvert lægri en þetta. Hins vegar getur þessi samningur verið ákveðin fyrirmynd og með því tryggt að launafólk verði ekki skilið út undan þegar laun hækka í landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×