Viðskipti innlent

Erlend ríki veiddu 5,4 prósent aflans við Ísland

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingar veiddu næst mest allra Evrópuþjóða og eru í 18. sæti heimslistans.
Íslendingar veiddu næst mest allra Evrópuþjóða og eru í 18. sæti heimslistans. Vísir/Vilhlem
Tæplega 1,3 milljón tonn veiddust af fiski við Ísland árið 2012 eða um 1,4 prósent af heimsaflanum. Hagstofan birtir þessar upplýsingar en þær eru unnar upp úr tölum frá Alþjóðahafrannsóknarráðinu (ICES).



Af þeim afla voru erlend ríki með um 69 þúsund tonn, eða um 5,4% aflans, þar af var loðna um 88%. Færeyjar, Grænland og Noregur veiddu samanlagt 99,6% af afla erlendra ríkja við Ísland.

Myndin sýnir annars vegar fiskveiðisvæðið Va og hins vegar 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslendinga til samanburðar. Brotin lína sýnir fiskveiðilögsögu Íslands. Heil lína sýnir fiskveiðisvæði Va.Mynd/Hagstofa Íslands
Árið 2012 var heimsaflinn 92,5 milljónir tonn, sem er tæpum 2,4 milljónum tonnum minna en árið áður, samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Mestur afli veiddist í Kyrrahafi. Mest veidda tegundin er perúansjósa, eins og á síðustu árum, en næst mest veidda tegundin er alaskaufsi. Mest af heimsaflanum var veiddur í Asíu, næst mest í Ameríku og svo Evrópu. Kínverjar veiddu mest allra þjóða árið 2012, en Norðmenn veiddu mest allra Evrópuþjóða og eru í 12. sæti yfir mestu veiðiþjóðir. Íslendingar veiddu næst mest allra Evrópuþjóða og eru í 18. sæti heimslistans.

Alþjóðahafrannsóknarráðið skiptir Norður-Atlantshafinu í 12 megin undirsvæði, þar á meðal er svæði Va sem umlykur Ísland. 200 mílna fiskveiðilögsaga Íslands er að stærstum hluta á svæði Va, en nær einnig að hluta til inn á svæði II, XII og XIV. Tölur birtar hér yfir afla erlendra ríkja við Ísland eiga eingöngu við svæði Va samkvæmt skilgreiningu ICES.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×