Innlent

Hópnauðgun í tæpt ár hjá ríkissaksóknara

fanney birna jónsdóttir skrifar
Rannsókn á hópnauðgun í Breiðholti lauk hjá lögreglunni í júní 2014. Málið er enn til skoðunar hjá ríkissaksóknara en ákvörðun um ákæru eða niðurfellingu liggur ekki fyrir.
Rannsókn á hópnauðgun í Breiðholti lauk hjá lögreglunni í júní 2014. Málið er enn til skoðunar hjá ríkissaksóknara en ákvörðun um ákæru eða niðurfellingu liggur ekki fyrir. Fréttablaðið/Daníel
Ríkissaksóknari er enn með mál fimm pilta sem kærðir voru fyrir hópnauðgun síðastliðið vor til skoðunar. Mennirnir voru handteknir í kjölfar þess að sextán ára stúlka lagði fram kæru á hendur þeim fyrir nauðgun í samkvæmi í Breiðholti. Þeir voru leiddir fyrir dómara og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þeir hafa allir lýst yfir sakleysi sínu og sagt stúlkuna hafa veitt samþykki fyrir því að stunda með þeim samfarir.

Meðal gagna sem stúlkan lagði fram er myndband af atvikinu. Vitað er að myndbandið fór í dreifingu á netinu auk þess sem allir aðilar málsins voru nafngreindir á samfélagsmiðlum.

„Málið er enn til meðferðar hjá Ríkissaksóknara. Ákvörðun um ákæru eða niðurfellingu liggur ekki fyrir. Það er ekki hægt að segja til um hvenær ákvörðun liggur fyrir,“ segir Daði Kristjánsson, saksóknari hjá Ríkissaksóknara, í samtali við Fréttablaðið.

Daði segir ástæðu tafanna vera þunga málastöðu embættisins í nokkurn tíma.

„Við forgangsröðum eftir skilgreindum forgangi, erum bundin yfir kærðum ákvörðunum og lögmætum tímafrestum og einnig háð frestum sem dómstólar veita okkur. Við afgreiðum mál sem eru fyrir dómi, greinargerðir fyrir Hæstarétti og annað sem við ráðum ekki við,“ segir Daði.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lauk rannsókn málsins og vísaði því til Ríkissaksóknara í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×