Innlent

Reykjanesbæ stefnt vegna Helguvíkur

Sveinn Arnarsson skrifar
Deilur um lóðaúthlutanir fyrirhugaðrar uppbyggingar í Helguvík verða leiddar til lykta í dómssal.
Deilur um lóðaúthlutanir fyrirhugaðrar uppbyggingar í Helguvík verða leiddar til lykta í dómssal.
Atlantic Green Chemicals (AGC) hafa stefnt Reykjanesbæ og Thorsil ehf. vegna deilna um úthlutun lóðar í Helguvík. Vilja forsvarsmenn Atlantic Green að viðurkennd verði með dómi skylda Reykjanesbæjar til að staðfesta úthlutun á lóðinni Berghólabraut 4 í Helguvík til fyrirtækisins. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Upphaf málsins má rekja til ágústmánaðar árið 2011 þegar AGC sótti um, og fékk vilyrði, fyrir lóð í Helguvík og hóf vinnu við umhverfismat.

Í frummatsskýrslu kísilvers Thorsil ehf. frá því í fyrrahaust kemur í ljós að kísilverið væri staðsett á umræddri lóð sem Atlantic Green Chemicals hafði fengið vilyrði fyrir.

Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil ehf., segir fyrirtækið vera með undirritaðan lóðasamning við Reykjanesbæ á umræddri lóð og ekki vera beinn aðili að þessu máli. „AGC telja sig svikna af bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Þá beinist stefnan að bænum en ekki okkur. Við vitum hins vegar ekki til að neinn annar lóðasamningur hafi verið gerður. Við teljum að okkar samningur haldi og höfum þannig litlar áhyggjur af málinu,“ sagði Hákon.

Sjá einnig: Fengu lóð sem öðrum var útdeilt og heimta skýringu

Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri Reykjanesbæjar, tekur í sama streng og hafnar málatilbúnaði AGC. „Fyrirtækið gerði aldrei formlegan samning við bæinn. Það þarf formlega lóðaumsókn til að það sé bindandi,“ segir Pétur. „Það er þannig að menn sækja um lóð og eftir samþykkt hafa menn sex mánaða frest til greiðslu. Í þessu tilviki var vilyrði veitt fyrir lóðinni þegar umhverfismat lægi fyrir. Þegar úrskurður lá fyrir var síðan aldrei bundinn neinn endahnútur á lóðaumsókn til að ljúka málinu.“

Í stefnunni er greint frá því að fyrirtækið hafi frestað uppbyggingunni vegna óvissu um aðgengi að varmaorku þegar uppbygging kísilvera í Helguvík tafðist.

AGC áformar að reisa lífalkóhól- og glýkósaverksmiðju í Reykjanesbæ og hófst undirbúningsvinna árið 2010. Í starfsemina þarf gufu frá kísilverum en hugmyndir eru uppi um byggingu tveggja kísilvera í Helguvík auk álvers á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×