Innlent

Segja Kristján Loftsson ögra alþjóðasamfélaginu með annarri Japansferð

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
1.700 tonn af langreyðarkjöti eru um borð í Winter Bay sem liggur við bryggju í Hafnarfirði þar sem þessi mynd var tekin í gær.
1.700 tonn af langreyðarkjöti eru um borð í Winter Bay sem liggur við bryggju í Hafnarfirði þar sem þessi mynd var tekin í gær. VÍSIR/ERNIR
„Dýraverndunarsjónarmið eru fyrir borð borin með þessu atferli. Það er líka í þágu íslenskra hagsmuna að snúa baki við slíkum óvissuferðum Hvals hf. og virða vilja alþjóðasamfélagsins,“ segir Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóðadýraverndunarsjóðsins.

Samtökin furða sig á því að Hvalur hf. ætli að ögra alþjóðasamfélaginu með hnattreisu með langreyðarkjöt til Japans. Þetta kom fram í tilkynningu frá samtökunum í gær í kjölfar frétta af 1.700 tonnum af langreyðarkjöti til útflutnings um borð í skipinu Winter Bay sem liggur nú við festar í Hafnarfjarðarhöfn. Kristján Loftsson, stjórnarformaður hjá HB Granda, er forstjóri Hvals hf.

Samtökin segja að víðast hvar sé litið á milliríkjaverslun með hvalkjöt sem ólöglega verslun með smyglvarning, sem fá ríki vilja nokkuð koma nálægt. „Það er litið á slíka verslun sömu augum og verslun með fílabein,“ segir Sigursteinn.

Hvalveiðar eru bannaðar samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins frá 1982 og telur Alþjóðadýravelferðarsjóðurinn ólíklegt að CITES-samningurinn sem Ísland hefur fullgilt, um alþjóðaverslun með plöntur og dýr í útrýmingarhættu, muni samþykkja milliríkjaverslun með langreyðarkjöt.

„Langreyðurin er á lista yfir dýr í útrýmingarhættu samkvæmt þeim samningi,“ segir Sigursteinn.

„Skipið Alma sigldi síðasta vor með hvalkjöt í einn og hálfan mánuð mjög óhefðbundna leið og lagðist hvergi að bryggju fyrr en á áfangastað. Það sýnir skoðanir alþjóðasamfélagsins.“


Tengdar fréttir

„Business as usual“

Kristján Loftsson hjá Hval hf. segir ekkert nýtt í hótunum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem í minnisblaði sínu til bandaríska þingsins, gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga á langreyði harðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×