Skoðun

Aldraðir hlunnfarnir

Björgvin Guðmundsson skrifar
Í síðustu grein minni ræddi ég um lífeyri aldraðra frá almannatryggingum annars staðar á Norðurlöndunum og í öðrum nágrannaríkjum okkar. Í ljós kom, að grunnlífeyrir aldraðra er margfalt hærri í þessum löndum en hér. Og heildarlífeyrir aldraðra er einnig miklu hærri í þessum löndum en hérna. Það er því ljóst, að eldri borgarar og raunar einnig öryrkjar, hafa verið hlunnfarnir hér. Kjörum aldraðra hefur verið haldið niðri. Þegar þessar staðreyndir blasa við, er því undarlegra, að stjórnarflokkarnir skuli ekki standa við kosningaloforðin, sem lífeyrisþegum voru gefin fyrir síðustu kosningar. En í stað þess að standa við loforðin er sannleikanum hagrætt og því haldið fram, að búið sé að uppfylla loforðin! Því fer fjarri. Það er enn verið að hlunnfara eldri borgara og öryrkja.

LEB gagnrýndi ríkisstjórnina

Á nýafstöðnum landsfundi Landssambands eldri borgara (LEB) kom fram hörð gagnrýni á ríkisstjórnina vegna svika stjórnarflokkanna við eldri borgara og öryrkja. Þessi gagnrýni kom bæði fram í ályktun fundarins um kjaramál og í ræðum þingfulltrúa. Fram kom, að ríkisstjórnin hefur aðeins uppfyllt lítinn hluta þeirra kosningaloforða, sem stjórnarflokkarnir gáfu lífeyrisþegum 2013. Enn er eftir að uppfylla stærsta loforðið, þ.e. að leiðrétta kjaragliðnun (kjaraskerðingu) krepputímans. Sú leiðrétting þýðir, að það þarf að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um a.m.k. 20%. Ríkisstjórnin minnist aldrei á þetta loforð. Hún vill helst gleyma því. Sama er að segja um loforðið um að afturkalla skerðinguna á frítekjumarki fjármagnstekna. Enda þótt það sé í stjórnarsáttmálanum, að þessa leiðréttingu eigi að framkvæma, er ekkert gert í því. Þannig mætti áfram telja.

Alls skuldar ríkisstjórnin öldruðum og öryrkjum í kringum 30 milljarða ætli hún að efna kosningaloforðin við lífeyrisþega að fullu.

Stórhækka verður lífeyri aldraðra

Stóra málið er þó að hækka verður lífeyri aldraðra og öryrkja það mikið, að hann verði sambærilegur við slíkan lífeyri í grannlöndum okkar. Eðlilegast er að byrja á að hækka hann til samræmis við neyslukönnun Hagstofunnar, þ.e. í rúmar 300 þúsund krónur á mánuði. Það er raunar í samræmi við kröfu verkafólks um lágmarkslaun og í samræmi við ályktun landsfundar LEB. Það er lágmark til að geta lifað sómasamlegu lífi af lífeyrinum. Eldri borgarar treysta á það, að verkalýðshreyfingin knýi það fram í yfirstandandi kjaradeilu, að lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki jafnmikið og lægstu laun munu hækka.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×