Innlent

Ferðamennirnir þungt haldnir í öndunarvél

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti þrjá til Reykjavíkur.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti þrjá til Reykjavíkur. Fréttablaðið/Stefán
Tveimur ferðamönnum er haldið sofandi í öndunarvél eftir alvarlega bílveltu við Hellissand í gærmorgun. Þau eru bæði þungt haldin.

Sex manns voru í bílnum og nota þurfti klippur til að ná einum þeirra úr bílnum en þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann. Hinir þrír voru fluttir á Heilsugæsluna á Ólafsvík.

Samkvæmt heimildum blaðsins var nokkur óánægja á meðal starfsmanna sem tóku á móti þeim slösuðu vegna skorts á aðbúnaði á spítalanum.

Hugbúnaður í sneiðmyndatæki fraus við meðferð á ferðamönnunum og tafðist því aðgerð á þeim en bilunin hafði ekki áhrif á heilsu þeirra.

Forstjóri mætti á vettvang

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, var meðal annars kallaður á vettvang.

„Tækið er ekki alveg glænýtt, en það er ekki komið á úreldingarlista,“ segir Páll. Spítalinn á tvö tæki, eitt við Hringbraut, annað í Fossvogi.

Lengi hefur verið á dagskrá að kaupa nýtt sneiðmyndatæki en það kostar um 250 milljónir. Stefnt er á að festa kaup á tækinu á næsta ári.

„En í millitíðinni, á meðan við höfum bara eitt tæki og hitt er hinum megin við Öskjuhlíðina, þá geta komið upp alvarleg atvik,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×