Skoðun

Hjartans mál

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Hvað erum við Íslendingar sammála um þegar kemur að ríkisfjármálunum? Svarið er einfalt: Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill forgangsraða skattfé til heilbrigðismála. Þetta kom skýrt fram í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir þingflokk Pírata í nóvember sl. Það sem meira er, þetta á við um alla aldursflokka, alla tekjuhópa, kjósendur allra flokka úr öllum kjördæmum, konur og karla. Ísland hefur líka verið í fremstu röð á sviði heilbrigðismála eins og langlífi og hverfandi ungbarna- og mæðradauði sýna. Við viljum öll að svo verði áfram.

Hættumerki

Endurtekin verkföll í heilbrigðiskerfinu eru alvarleg hættumerki. Margar af stóru kvennastéttunum, sem hafa virkað eins og límið í samfélaginu í eftirleik hrunsins, eru búnar að fá nóg og komnar í verkfall. Heilbrigðisstofnanir eru enn að ná sér eftir verkfall lækna sl. haust, starfsemi þeirra hefur verið í hægagangi vegna verkfalls BHM í um níu vikur og nú hefur verkfall hjúkrunarfræðinga staðið í á aðra viku. Við þetta verður ekki búið. Landlæknir telur að öryggi sjúklinga sé ógnað. Þetta ástand grefur undan heilbrigðiskerfinu og þar með mikilvægustu grunnstoð samfélagsins.

Hvað er til ráða?

Framlög til heilbrigðismála höfðu verið skorin niður árin fyrir hrun og í niðurskurðinum í kjölfarið var ekki hægt að hlífa heilbrigðiskerfinu sökum umfangs þess í ríkisútgjöldum. Á sama tímabili hefur sjúklingum fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Það þýðir að álagið hefur aukist og færri vinna meira á lakari kjörum. Í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir þurfa allir aðilar að leggja sitt af mörkum til að samningar náist. Ríkisstjórnin verður að sýna, svart á hvítu, að hún hyggist leggja stóraukið fé til heilbrigðismála. Það er eini kosturinn ef við ætlum að standa vörð um það sem stendur hjarta okkar næst, íslenska heilbrigðiskerfið.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×