Innlent

„Fólki líður djöfullega með þetta"

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður samtakanna, eftir að slitnaði upp úr viðræðum.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður samtakanna, eftir að slitnaði upp úr viðræðum. fréttablaðið/Vilhelm
„Fólki líður auðvitað djöfullega með þetta og það upplifir gríðarlega óvirðingu frá viðsemjendum okkar,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar Bandalags háskólamanna, eftir að slitnaði upp úr viðræðum við ríkið síðdegis í gær.

„Við upplifum það þannig að við séum búnir að sitja þarna í sýndarviðræðum um allangt skeið og ríkið sé ekkert að semja við okkur,“ segir Páll. Sáttafundi Félags hjúkrunarfræðinga við ríkið lauk sömuleiðis án árangurs um sama leyti.

„Okkar kröfur hafa miðað að því að útrýma launamun og draga úr þessum kynbundna launamun og það er ekki sjáanlegur neinn vilji hjá ríkinu til að taka þau skref sem þarf að taka,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags hjúkrunarfræðinga. „Það virðist hreinlega ekki vera neinn vilji hjá ríkisstjórninni til að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi með þátttöku hjúkrunarfræðinga.“

Verkföll sumra félagsmanna BHM hafa nú staðið yfir í meira en átta vikur og engin lausn er í sjónmáli.

Verulegrar reiði og óþreyju er farið að gæta í röðum félagsmanna BHM. Þannig hefur þriðjungur geislafræðinga á LSH sagt upp störfum og margar ljósmæður hafa sótt um störf á Norðurlöndunum.

„Þetta hefur auðvitað afleiðingar,“ segir Páll. „Ríkið á óhjákvæmilega eftir að lenda í erfiðum mönnunarvandamálum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×