Innlent

Enn hallar á lokaritgerð viðskiptafræðinemans

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Nemandinn fékk átta í einkunn fyrir ritgerðina og er útskrifaður viðskiptafræðingur í dag.
Nemandinn fékk átta í einkunn fyrir ritgerðina og er útskrifaður viðskiptafræðingur í dag. VÍSIR/ERNIR
Það lítur út fyrir að fleira sé ámælisvert í lokaritgerð nýútskrifaðs viðskiptafræðinema frá Háskóla Íslands en skálduð viðtöl.

Á laugardaginn greindi Fréttablaðið frá því að svo virtist sem öll viðtöl í ritgerðinni væru fölsuð, meðal annars við Friðrik Pálsson hótelstjóra, Henk Hoogland, eiganda gistiheimilis, og þriðja viðmælanda sem kaus að koma ekki fram undir nafni. Allir viðmælendurnir hafa staðfest að höfundur ritgerðarinnar hafi aldrei rætt við þá.

Árni Björn Guðjónsson
Árni Björn Guðjónsson frumkvöðull fékk ábendingu í kjölfar fréttaflutnings af málinu um að í ritgerðinni væri hugsanlega byggt á hugmynd hans um framkvæmdir og rekstur á gisti- og baðaðstöðu á Suðurlandi. „Mér finnst enginn vafi á að nemandinn hafi notast við mínar viðskiptahugmyndir við gerð ritgerðarinnar,“ segir Árni og bætir við að viðskiptamódelið í ritgerðinni sé það sama og það sem hann hefur unnið að í nokkur ár.

Árni ætlar að gera skólanum viðvart. „Ég þarf að geta sannað að hann hafi ekki bara fengið nákvæmlega sömu hugmynd og ég. Ég læt deildina vita að mig gruni þetta,“ segir Árni sem helst langar að hafa samband við nemandann og spyrja hann hvort honum finnist ekki rangt að nota hugmyndir annars höfundar án þess að geta þess í heimildaskrá.

Athygli vekur að nemandinn fékk 8 í einkunn fyrir ritgerðina og er útskrifaður viðskiptafræðingur í dag.


Tengdar fréttir

Lokaritgerð háskólanema virðist uppspuni frá rótum

Viðmælendur í háskólaritgerð kannast ekki við að hafa verið í viðtali. Gögn ritgerðarinnar virðast vera uppspuni. Háskóla Íslands gert viðvart. Nemandinn sem fékk 8 í einkunn er útskrifaður viðskiptafræðingur.

Fleiri ummæli virðast skálduð í lokaritgerð háskólanema

Lokaritgerð nýútskrifaðs viðskiptafræðinema virðist byggð á uppspuna. Enginn þriggja viðmælenda í ritgerðinni kannast við að hafa rætt við höfundinn. Nemandinn fékk átta í einkunn, en ritgerðin er full af stafsetningar- og málfarsvillum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×