Fyrst eftir að Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra tilkynnti í lok maí að efnt yrði til kosninga núna 18. júní virtist allt stefna í að hægri flokkarnir, undir forystu Lars Løkke Rasmussen, myndu fella stjórnina.
Þetta nokkurra prósenta forskot bláu blokkarinnar svonefndu er nú horfið. Samkvæmt skoðanakönnunum skiptast kjósendur nánast hnífjafnt á milli fylkinganna.
Stóru flokkarnir tveir skiptast á um að kynna ný loforð til að laða að kjósendur, þar sem áherslurnar hafa meðal annars verið á atvinnumál, umhverfismál, skatta og flóttamannastrauminn til Danmerkur.
Á fimmtudagskvöldið mættust svo leiðtogar þeirra, þau Thorning-Schmidt og Løkke, í sjónvarpseinvígi, því þriðja sem efnt er til í þessari kosningabaráttu. Þar þrættu þau um það hvoru þeirra kjósendur gætu þakkað hagvöxt síðustu ára.
„Við höfum séð til þess að Danmörk er komin út úr kreppunni, og nei, Lars Løkke, það er ekki þú sem hefur séð til þess. Það er mín pólitík sem hefur séð til þess,“ sagði forsætisráðherrann.
„Nú þykir mér, ærlega talað, að þú sért að skreyta þig með lánsfjöðrum,“ svaraði Løkke.
„Það ert þú sem ert að skreyta þig með lánsfjöðrum,“ svaraði þá Thorning-Schmidt.
Sitt sýndist hverjum um það hvort þeirra hafði betur í einvíginu.
Samkvæmt skoðanakönnun, sem birt var í Jótlandspóstinum í gær, segjast nærri 70 prósent Dana ekki hafa það á tilfinningunni að danskir stjórnmálamenn taki skoðanir og áhyggjur kjósenda alvarlega. Almennt hefur tiltrú Dana á stjórnmálamönnum dalað mjög á síðustu árum.
Grindavík
Haukar