Erlent

Mansal er vandamál í útgerð á Taílandi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Stjórnvöld á Taílandi vinna að því að uppræta mansal í fiskiðnaði.
Stjórnvöld á Taílandi vinna að því að uppræta mansal í fiskiðnaði. vísir/epa
Mansal hefur tíðkast í fiskiðnaði í Taílandi um árabil. Human Rights Watch og Anti-Slavery samtökin hafa greint frá slæmum aðstæðum starfsmanna á smábátum í Taílandi. Dæmi eru um að verkamenn frá Búrma gangi kaupum og sölum á milli skipstjóra.

ORA kaupir túnfisk frá Taílandi en Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri ORA, leggur mikla áherslu á að starfsfólk sinna viðskiptavina búi við viðunandi starfsskilyrði.

Leifur Þórsson
„Það er líka þannig að allir sem stunda verslun við Evrópumarkað þurfa að vera með tilheyrandi starfsskilyrði og vottun. Og ef eitthvað er að er gerð úttekt á því að viðkomandi standist allar tilsettar kröfur.“

Fyrr á árinu setti Evrópusambandið þau skilyrði að taílensk stjórnvöld ynnu markvisst gegn mansali í starfsgreininni og hótaði að setja innflutningsbann á fisk til ESB ef engar bætur yrðu á. Taíland er þriðja stærsta fiskútflutningsþjóð í heimi.

Í fyrra greindi The Guardian frá því að alþjóðlega fiskveiðifyrirtækið CP Foods frá Taílandi verslaði með afurðir sem veiddar hefðu verið af fórnarlömbum mansals.

„Við hjá ORA höfum síðustu áratugi keypt nær allan túnfisk sem við höfum selt hér á landi af taílenska framleiðandanum Thai Union. Allur túnfiskur sem seldur hefur verið í nafni ORA á smásölumarkaði hefur komið frá þeim framleiðanda.“

Í tilfelli Thai Union höfðu viðskipti við mansalsmenn ekki átt sér stað en forsvarsmenn Thai Union hafa harðlega fordæmt ólöglega starfsemi af þeim toga.

Leifur leggur áherslu á viðunandi viðskiptavini. „Það skiptir okkur gífurlega miklu máli að þeir sem við stundum verslun við séu ábyrgir framleiðendur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×