Erlent

Sex létust þegar svalir hrundu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Írar eru harmi slegnir yfir dauða fimm írskra skiptinema.
Írar eru harmi slegnir yfir dauða fimm írskra skiptinema. nordicphotos/getty
Sex ungmenni létust og sjö slösuðust alvarlega þegar svalir íbúðar á fjórðu hæð íbúðarhúss í háskólabænum Berkeley í Kaliforníu hrundu á þriðjudag.

Fimm hinna látnu voru írskir skiptinemar en sá sjötti Bandaríkjamaður. Ungmennin voru saman komin til að halda upp á 21 árs afmæli eins úr vinahópnum.

Ættingjar ungmennanna voru í gær sagðir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC á leið á vettvang. Talið er líklegt að þeir muni fyrstir fá upplýsingarnar sem veittar verða um orsakir þess að svalirnar létu undan þunga þeirra sem á þeim voru.

Charles Flanagan, utanríkisráðherra Írlands, sagði í tilkynningu eftir að ljóst var hvað gerst hafði að um væri að ræða hörmungardag fyrir aðstandendur hinna látnu. „Nemendurnir og fjölskyldur þeirra eru okkur efst í huga,“ sagði hann.

Svalirnar losnuðu af byggingunni og féllu fimmtán metra, áður en þeim hvolfdi yfir svalir á þriðju hæð hússins.

Slysið hefur vakið upp miklar spurningar um byggingarreglugerðir á svæðinu.

Svalirnar sem hrundu áttu samkvæmt reglunum að þola um það bil 1.400 kíló, sem er vel umfram heildarþyngd ungmennanna.

Öðrum svölum byggingarinnar hefur verið lokað í öryggisskyni.

Einn íbúa byggingarinnar, Sam Cacas, gagnrýndi öryggi hússins harðlega í samtali við fréttastofu USA Today. Hann sagði ekki nægilega vel gætt að húsinu og íbúum þess og bætti því við að auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir harmleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×